Erlent

Ráð­herrann látinn fara vegna deilna um „litla flensu“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Jair Bolsonaro Brasilíuforseti og Luiz Henrique Mandetta heilbrigðisráðherrann fyrrverandi.
Jair Bolsonaro Brasilíuforseti og Luiz Henrique Mandetta heilbrigðisráðherrann fyrrverandi. AP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur látið heilbrigðismálaráðherrann Lúiz Henrique Mandetta, taka poka sinn.

Heilbrigðisráðherrann og forsetinn hafa gjörólíka sýn á hvernig skuli bregðast við kórónuveirufaraldrinum sem geisar.

Mandetta hefur viljað taka málin föstum tökum og innleiða harðari sóttvarnaraðgerðir til að stemma stigu við faraldrinum á meðan efnahagurinn er Bolsonaro efst í huga.

Hann hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum og kallað Covid-19 sjúkdóminn „litlu flensu“. Hann hefur opinberlega gagnrýnt viðbrögð Mandetta við faraldrinum og sagt þau yfirdrifin. Þá hefur hann gert lítið úr tilmælum Mandetta til ríkisstjóra landsins.

Mandetta greindi frá vendingunum á Twitter-síðu sinni strax að loknum fundi með Bolsonaro. Hann þakkaði kjósendum traustið og varaði við því að í vændum væri stórkostleg áskorun fyrir heilbrigðiskerfi landsins.

Bolsonaro hefur einnig tjáð sig um brottrekstur Mandetta. Hann sagði í viðtali að „skilnaðurinn hefði verið með samþykki beggja,“ eins og hann komst að orði.


Tengdar fréttir

Ósannindum þjóðarleiðtoga um veiruna eytt af samfélagsmiðlum

Samfélagsmiðlarnir Facebook og Twitter hafa tekið upp á því að eyða færslum þjóðarleiðtoga á þeim forsendum að þeir dreifi rangfærslum um kórónuveirufaraldurinn. Fyrirtækin hafa fram að þessu verið afar hikandi við að hafa afskipti af færslum þjóðarleiðtoga jafnvel þegar þeir fara með rakin ósannindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×