Körfubolti

„Eins og að fara á Michelin-stað, kokkurinn er lasinn og það er einhver í starfskynningu í staðinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Capers naut ekki við í oddaleik KR og ÍR um Íslandsmeistaratitilinn.
Capers naut ekki við í oddaleik KR og ÍR um Íslandsmeistaratitilinn. vísir/vilhelm

KR varð Íslandsmeistari í körfubolta karla í sjötta sinn í röð eftir sigur á ÍR, 98-70, í oddaleik í DHL-höllinni á síðasta tímabili.

ÍR-ingar komust í 2-1 með ævintýralegum sigri í þriðja leiknum í Vesturbænum en KR-ingar jöfnuðu í 2-2 með sigri í Seljaskóla. Í þeim leik handleggsbrotnaði Kevin Capers, bandarískur leikmaður ÍR. Hann var því fjarri góðu gamni í oddaleiknum.

„Við vildum allan tímann hafa hann með. Það er mjög leiðinlegt þegar menn meiðast, sama hvort það eru manns eigin leikmenn eða aðrir. Það er fúlt,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, í annál um körfuboltaárið 2019 sem var sýndur á Stöð 2 Sport milli jóla og nýárs.

Pavel Ermolinskij og Jón Arnór Stefánsson tóku í sama streng og Ingi.

„Þeir áttu það skilið, hann átti það skilið og við áttum líka skilið að fá besta mögulega liðið á móti okkur. Þetta var mjög leiðinlegt,“ sagði Pavel.

„Það setti smá skugga á þetta. En með eða án hans, held ég að við hefðum verið tilbúnir í þá í fimmta leik,“ sagði Jón Arnór.

Svali Björgvinsson, lýsari og körfuboltasérfræðingur, segir að ÍR-ingum hafi reynst erfitt að fylla skarð Capers og kom með skemmtilega samlíkingu.

„Þetta var svolítið eins og að fara á Michelin-stað, kokkurinn er lasinn og það er einhver í starfskynningu í staðinn,“ sagði Svali.

„ÍR-ingar voru vel þjálfaðir, ofboðslega skemmtilegir og mikil samheldni í liðinu. Þetta var ekki algjört loftskot. En því miður meiddist hann og það er hluti bara af íþróttum.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Oddaleikur KR og ÍR

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×