Körfubolti

Stjórnarmenn KR mættu með bikarinn í veiðiferð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði KR, lyftir Íslandsmeistarabikarnum sem hefur átt lögheimili í DHL-höllinni síðan 2014.
Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði KR, lyftir Íslandsmeistarabikarnum sem hefur átt lögheimili í DHL-höllinni síðan 2014. vísir/daníel

KR varð Íslandsmeistari karla í körfubolta í sjötta sinn í röð á síðasta tímabili. Ekkert annað lið hefur afrekað það í íslenskri körfuboltasögu.

Í annál um íslenska körfuboltaárið 2019, sem var sýndur á Stöð 2 Sport milli jóla og nýárs, var rætt um afrek KR og það sigurumhverfi sem búið er að skapa vestur í bæ.

„Ég held að það sé bara fólk sem er inni í körfuboltahreyfingunni sem gerir sér grein fyrir hvers konar afrek þetta er. Þetta er fáránlegt. Það sem allir aðrir leggja á sig til að reyna að velta þeim af toppnum er svo magnað,“ sagði Teitur Örlygsson, einn sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds.

„Persónulega hlakka ég mjög til þegar KR dettur út og þetta brjálæði endar. Þetta er ekkert venjulegt afrek.“

Kristinn Friðriksson, sérfræðingur í Domino's Körfuboltakvöldi, þegar að í fyllingu tímans geri fólk sér grein fyrir hversu stórt og mikið afrek KR-inga sé.

„Við metum þetta ekki eins mikið núna. Það er eðlilegt. Það gerist alltaf með árunum að goðsögnin verður til. Að vinna sex titla í röð í nútímabolta, ég held að það eigi ekki eftir að gerast aftur. Þetta er í síðasta skipti sem við sjáum eitthvað svona,“ sagði Kristinn.

Teitur segir að umgjörðin hjá KR sé fyrsta flokks og metnaðurinn mikill.

„Stjórnin hefur búið til umgjörð þar sem mönnum líður greinilega vel og það skiptir miklu máli. Kannski mættu önnur lið taka sér það til fyrirmyndar. Þeir eru ofboðslega stoltir og eru með flottan kjarna af stuðningsmönnum,“ sagði Teitur sem sagði svo skemmtilega sögu.

„Ég þekki stjórnarmenn í KR mjög vel. Hef lent í að vera með þeim í veiðiferð þar sem þeir mættu með Íslandsmeistarabikarinn. Það er partur af því hvað ég hlakka til að sjá KR tapa.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Stórveldið KR

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×