Erlent

Þýska ríkið eignast 20 prósenta hlut í Luft­hansa gangi samningar eftir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Björgunarpakkinn heyrir upp á 9 milljarða Evra.
Björgunarpakkinn heyrir upp á 9 milljarða Evra. EPA/ARMANDO BABANI

Þýska flugfélagið Lufthansa er í viðræðum við þýska ríkið um 9 milljarða evra björgunaraðgerð til að reyna að koma í veg fyrir fall félagsins vegna kórónuveirufaraldursins. Upphæðin samsvarar nærri 1.411 milljörðum íslenskra króna. Með aðgerðinni myndi þýska ríkið eignast 20 prósenta hlut í félaginu. 

Í tilkynningu frá Lufthansa í dag kemur fram að gangi samningar eftir fái ríkið tvö sæti í rekstrarráði félagsins en myndi aðeins nýta kosningarétt sinn í ráðinu við sérstakar aðstæður.

Viðræður milli ríkisins og Lufthansa hafa staðið yfir í margar vikur en hefur reynst erfitt að ná samkomulagi um það hversu mikla stjórn á félaginu ríkið myndi fá. Heimildarmenn fréttastofu Reuters segja að lokatilboð hafi ekki verið kynnt af ríkinu en það ætti að gerast í dag, fimmtudag.

Önnur flugfélög hafa einnig sóst eftir fjárhagsaðstoð, þar á meðal fransk-hollenska félagið Air France-KLM, bandarísku flugfélögin American Airlines, United Airlines og Delta Air Lines.

Í tilkynningunni frá Lufthansa kom einnig fram að í samningnum yrði sagt til um niðurfellingu framtíðar arðgreiðslna og takmörk rekstrarkostnaðar. Þá mun framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins þurfa að samþykkja samninginn áður en hann er undirritaður.


Tengdar fréttir

Opnun landamæra getur tryggt tekjur  vegna afbókunarskilmála

Ef svartsýn spá Seðlabankans rætist mun það hafa slæmar afleiðingar fyrir mörg ferðaþjónustufyrirtæki að mati Samtaka ferðaþjónustunnar. Með opnun landamæra er þó líklegra að þeir sem eigi pantaðar ferðir til landsins standi við ferðaplön sín vegna afbókunarskilmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×