Afar mikilvægt er að Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands nái samningum fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins að mati greinenda. Hluthafar ákveða á morgun hvort stjórnendur Icelandair fái heimild til að fara í hlutafjárútboð.
Samningafundir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair Group var slitið í gær og ekki boðað til nýs fundar. Forstjóri félagsins sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að lokatilboð þess til Flugfreyjufélagsins hafi falið í sér krónutöluhækkanir á hæstu og lægstu laun um 12 prósent hækkun í tilfelli síðarnefnda hópsins.
Þrátt fyrir kröfu um aukið vinnuframlag frá flugfreyjum og -þjónum innihaldi samningurinn starfskjör fyrir flugliða sem sé með þeim bestu sem þekkist á Vesturlöndum.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru meðalmánaðarlaun flugliða fyrir fullt starf á síðasta ári 520 þúsund krónur og við það bættust um 140-145 þúsund króna dagpeningar á mánuði. Yfirflugfreyjur voru að meðaltali með um 740 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf.
Hluthafafundur Icelandair verður haldinn á Hótel Hilton á morgun klukkan fjögur. Allir hluthafar félagsins hafa rétt til að mæta á fundinn. Tilefni hans er að stjórn Icelandair fer fram á að hluthafar veiti leifi til að auka hlutafé í félaginu og halda hlutafjárútboð.
Komið hefur fram að félagið þurfi að safna allt að 29 milljörðum í hlutafjárútboðinu. Ef stjórnendur fá heimildina er að sögn greinenda búist við að sjálft hlutafjárútboðið fari fljótlega fram. Þá hefur komið fram í samtali við greinendur í morgun að mikilvægt sé að samningar náist við Flugfreyjufélag Íslands fyrir útboðið.