Félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands (FFÍ) mættu til fundar á Hilton Nordica-hótelinu við Suðurlandsbraut nú í morgun. Á fundinum verður farið yfir stöðuna í kjaraviðræðum félagsins við Icelandair. Fleiri slíkir fundir verða haldnir nú í dag en félagsmönnum hefur verið skipt í hópa vegna sóttvarnatakmarkana.
Talsverður hiti færðist í viðræður FFÍ og Icelandair í gærkvöldi eftir að Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sendi starfsfólki bréf, þar sem hann útlistaði síðasta tilboð sem félagið lagði fram í kjaradeilunni. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, sagði í yfirlýsingu í kjölfarið að með bréfinu bryti Bogi lög um stéttarfélög og vinnudeilur.
Ekki hefur farið fram formlegur samningafundur í deilunni síðan í byrjun vikunnar en þá hafnaði samninganefnd FFÍ áðurnefndu „lokatilboði“ Icelandair.
Hluthafafundur Icelandair verður haldinn klukkan fjögur í dag á Hilton Nordica-hótelinu, á sama stað og flugfreyjur funda nú. Bogi hefur lagt ríka áherslu á að samningar við flugstéttir náist fyrir hann en félagið hefur þegar samið við flugmenn og flugvirkja.