Erlent

Tugir fórust í flugslysinu í Pakistan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tjónið er gríðarlegt. Fimm hús hið minnsta stórskemmdust og tugir fórust.
Tjónið er gríðarlegt. Fimm hús hið minnsta stórskemmdust og tugir fórust. Epa/Shahzaib Akber

Að minnsta kosti þrjátíu og sjö fórust og enn fleiri er saknað eftir að pakistönsk farþegaflugvél brotlenti í íbúðahverfi í borginni Karachi í dag. Þremur hefur verið bjargað enn sem komið er, tveimur farþegum og einum íbúa hverfisins.

Vélin, sem Pakistan International Airlines gerir út, var á leið sinni frá Lahore og var að koma inn til lendingar í Karachi. Flugmaðurinn sagði flugstjórn að vélarbilun hefði komið upp og sendi frá ser neyðarkall áður en vélin hrapaði.

Svartur mökkur steig upp frá slysstað og að minnsta kosti fimm hús eru gjörónýt eftir slysið. Tahir Hussain, flugvirki hjá flugfélaginu, varð vitni að slysinu.

„Við heyrðum gífurlegan hvell. Þetta hljómaði ekki eins og brotlending heldur meira eins og jarðskjálfti. Við héldum að veggur eða vatnstankur hefði hrunið en þegar við vorum komin upp á þak sáum við reyk úti um allt.“

Neyðarástandi var lýst yfir á öllum sjúkrahúsum borgarinnar, en töluvert álag er nú þegar á spítölunum vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×