Lífið

Hundrað ára og eiturhress?

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga Nagli, skrifar um heilsu á Vísi.
Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga Nagli, skrifar um heilsu á Vísi. Vísir/Vilhelm

Leyndarmálið að langlífi og lífsgæðum er blátt á litinn .

Allir vilja lifa lengi og heilsusamlega. Svo við teljum kaloríur, vigtum matinn ofan í okkur. Sleppum matarboðum til að horast með kjúkling og brokkolí heima. Pöntum salat á veitingastað þegar okkur langar í djúsí nautasteik. Afþökkum kökusneið í matarboði.

Því við viljum vera grönn.

Við viljum lifa lengur.

Í hnotskurn viljum við vera grönn og hraust á þessari löngu lífsleið.

En hraustasta og langlífasta fólkið í heiminum telur ekki kaloríur, svolgra ekki sellerídjúsa, skáparnir þeirra eru ekki troðfullir af fæðubótarefnum og goji berjum. Þeir vigta ekki grömm af kjúklingabringu, né lesa á miðann á matnum sínum…. Í raun er maturinn þeirra ekki með neinn miða.

Þeir eru ekki með hvíta hnúa að stjórna því sem þeir borða heldur fagna þeir og tengjast félagslega með mat.

Þetta er fólkið sem býr á bláu svæðunum.

Hvað eru bláu svæðin?

Nei þetta eru ekki Strumparnir. Halló Kjartan galdrakall.

Dan Buettner hjá National Geographic tók eftir á ferðalögum sínum um heiminn að á fimm svæðum var tíðni af langvinnum sjúkdómum mun lægri en annars staðar og óvenju margir náðu hundrað ára aldri miðað við restina af heiminum.

Hann dró þess vegna bláan hring utan um þau á landakorti.

Bláu svæðin eru:

Sjöunda dags aðventistar í Loma Linda í Kaliforníu

Okinawa eyja í Japan.

Nicoya á Costa Rica.

Sardinia eyja á Ítaliu

Ikaria á Grikkland

Blábúarnir eru ekki með betra DNA en við hin sótsvartur almúginn…. Halló Kári Stefáns.

Því þegar þeir flytja frá bláu svæðunum tekur ekki nema eina kynslóð fyrir lífslíkur þeirra að hrapa niður í tölfræðina í nýja póstnúmerinu.

Blái kúrinn

Þessar upplýsingar eru eins og gullnáma fyrir heilsugúrúa, enda með pervertískan áhuga á hvað sameinar þessi svæði til að geta selt skræður með töfralausn.

Ef þú borðar þetta þá verðurðu hraustur?

Ef þú borðar þetta þá lifirðu í heila öld.

Ef þu borðar þetta þá aukast lífsgæðin þín um mörg núll.

En málið er að HVAÐ þau borða er mismunandi frá einu svæði til annars.

Mataræðið er alltaf heilsusamlegt, en matseðillinn á Okinawa er samt ekki sá sami og í Sardiníu.

Grænt alla daga

Það sem sameinar mataræði blámannanna eru nokkrir lykilþættir

Blái kúrinn er 95 % plöntumiðaður en kjöt aðeins á boðstólum c.a fimm sinnum í mánuði.

Mikið af grænmeti og ávöxtum,

Baunir á hverjum degi,

Heilkorna afurðir eins og

Hnetur og fræ.

Á eyjunum Íkaríu og Sardiniu er borðað mikið af fiski, og ólífuolíu löðrað á allt og tvö glös af rauðvíni slurkuð á dag

En íbúar Loma Linda eru stífar grænmetisætur og hanga á snúrunni varðandi áfengisdrykkju.

Okinawabúar eru duglegir í sætum kartöflum, svínakjöti og soja.

Nigoya á Kosta Ríka elska tortillurnar sínar og grasker.

Allir drekka vatn og te. Sumir drekka kaffi og rauðvín.

Flestir blámennir borða fisk 2-3 x í viku.

Fólk á bláa kúrnum borða allan matinn sinn. Frá trýni að hala. Frá rót að stilk. Henda ekki út rauðunni úr egginu. Spinna ekki fituna úr jógúrtinu eða kreista allar trefjar úr ávöxtunum. Þeir bæta ekki við rotvarnarefnum og gervisætu.

Stór sameiginlegur þáttur hjá bláu vinum okkar er að maturinn kemur ekki úr pakka, álpappír, vakúmpakkningu eða plastfilmu. Maturinn er ekki unninn í öreindir í fabrikku og saltaður og sykraður aukalega og þeir hafa ekki hugmynd um hvað E-efni eru.

Maturinn þeirra er heimaeldaður. Ekki sveitt teikavei úr lúgusjoppu.

Og það er enginn kolefniskvíði eða flugviskubit því hráefnið kemur allt úr þeirra eigin póstnúmeri.

Gott ráð: Borðaðu mestmegnis heilar afurðir sem koma að mestu leyti úr plönturíkinu. Passaðu að fá nóg af trefjum og snarlaðu á hnetum og fræjum eins og kasjúhnetum frá Himneskri hollustu. Borðaðu fisk 2-3x í viku og/eða taktu Omega-3 fitusýrur (t.d frá NOW).

Gott partý alla daga.

Stærsti þátturinn í heilsu og langlífi á bláu svæðunum er félagslíf

Ekki að vera flottastur á Facebook. Ekki með flesta fylgjendur á Instagramm.Heldur eru þeir hluti af samfélagi. Kynslóðir búa saman undir sama þaki þar sem allir hafa hlutverk. T.d amma gamla passar barnabarnið meðan foreldrarnir fara á markaðinn.

Lífið hefur tilgang og merkingu en ekki hversu mörg læk á myndir frá Benidorm fengu. Þeir fjárfesta í fjölskyldunni, halda heilanum gangandi með félagslegu áreiti og upplifa ekki að vera gagnslaus.

Rannsóknir sýna að gift fólk lifir lengur og fólk sem á gæludýr lifir lengur. Rannsóknir sýna líka að einmanaleiki köttar átta ár af lífslíkum þínum. Að vera einmana er hættulegra heilsunni en að reykja fimmtán sígarettur á dag.

Gott ráð: Reyndu að rækta sambönd þín við fólkið þitt í kjötheimum þegar Kórónukrísunni lýkur, ekki bara í gegnum sms og messenger. Farðu á stefnumót, en ef Tinder er ekki að virka fyrir þig þá er alltaf hægt að kaupa hamstur.

Nærast í núvitund

En það sem skiptir meira máli en HVAÐ fer upp í munn og ofan í mag er HVERNIG þeir borða.

Viðhorf gagnvart mat á bláu svæðunum er að þeir borða til að lifa, en lifa ekki til að borða eins og er algengt í Vesturheimi. Hver máltíð er tækifæri til að tengjast öðrum, vera með fjölskyldu og vera þakklát fyrir allt hið góða í lífinu. Þeir gefa sér tíma til að njóta matarins og félagsskaparins og hægja á sér í smástund.

Okinawabúar aðhyllast aldagamalli hugmyndafræði sem heitir ‘Hari Hachi Bu sem er að borða hægt og rólega og borða sig 80% sadda. Þeir segja að fyrstu 80% seddunnar eru fyrir líkamann, næstu 20% eru fyrir lækninn. Það tekur líkamann 20-25 mínútur að losa út Leptín sem er sedduhormónið okkar. Ef við borðum þar til augun standa á stilkum og maturinn fyllir upp vélindað er auðvelt að skjóta yfir seddumerkin, og með tímanum missum við tengslin við merki líkamans.

Gott ráð: Borðaðu í fjórðu víddinni. Ekki gera neitt á meðan þú borðar og ekki borða meðan þú gerir eitthvað. Ekki borða fyrir framan imbann. Ekki skrolla símann og tölvuna. Kveiktu á kerti og dimmaðu ljósin til að skapa ró innra með þér og notalega stemmningu í kringum máltíðina.

Hreyfing

Blábúar hamast ekki í loftkældum líkamsræktarstöðvum að færa galvaníserað járn úr stað í klukkutíma eða hamast eins og rolla á girðingastaur að klifra upp tröppur á maskínu án þess að eiga áfangastað.

Allir eru í daglegri hreyfingu í gegnum garðyrkju, göngutúra og bústörf, Okinawa búar stunda tai chi á hverjum morgni.

Til dæmis ein dæmisaga af 102 ára sjómanni á Sardiníu sem hitti vini sína á hverjum morgni til að róa út til fiskjar og labbaði síðan uppá fjall að sækja ber til að hafa með fiskrétti kvöldsins.

Þeir eru mikið utandyra og fá því nægt D-vítamín í skrokkinn en rannsóknir sýna að D-vítamín er gríðarlega mikilvægt fyrir heilbrigt ónæmiskerfi.

Gott ráð:taktu D vitamin 2000 iu (t.d frá NOW) aukalega frá september fram í apríl. Fléttaðu daglega hreyfingu í líf þitt með að taka stigann í stað lyftunnar, leggja lengra frá eða labba í matvörubúðina.

Óli Lokbrá

Blábúar nota ekki vekjaraklukku heldur sofa bara eins og líkaminn þarf. Þeir hanga ekki yfir Instastories eða klára síðustu tölurnar í Excel fyrir fundinn á morgun kortéri fyrir svefninn.

Þeir taka síðdegislúr á daginn.

Þeir nota streitustjórnun í sínu daglega lífi eins og að spjalla við vini yfir vínglasi á Ikaria eyjunni, eða strolla úti í nátttúrunni í Loma Linda.

Gott ráð Hafðu góða svefnrútínu. Farðu snemma að sofa, kalt og niðamyrkur í svefnherberginu, dimmaðu ljósin í íbúðinni og enga skjábirtu 2 tímum fyrir svefn. Taktu magnesium fyrir svefninn til að auka endurheimt og bæta svefngæðin.

Slagga. Livva. Njódda.

Íbúar í hinum vestræna heimi eyða mörgum klukkutímum á lendum netsins í örvæntingarkasti að finna skothelt matarplan.

Við erum orðin svo stressuð í kringum hvað við megum borða. Hvað sé fitandi. Hvað er hollt. Hvað er óhollt.

Hversu mikið við eigum að borða. Hvað er nógu mikið. Hvað er of mikið.

Höngum á klukkunni um hvenær við eigum og megum borða og hvenær við megum ekki.

Allur þessi matarkvíði losar út streituhormón adrenalín, kortisól.

Þessi hormón stuðla að fitusöfnun.

Svo fína horaða matarplanið þitt getur jafnvel verið að smyrja bólstrun á þig í stað þess að plokka af þér kíló.

Að sama skapi getur mataræði sem er útreiknað í kolvetnum, prótínum og stútfullt af grænkáli og kínóa samt verið slæmt fyrir heilsuna ef það kemur í veg fyrir að mynda tengsl, veldur þér streitu og skapar stíft regluverk í lífinu.

Matur er sameiningartákn því hann færir fólk saman til að gleðjast og tengjast. Við deilum upplifuninni af að elda og undirbúa, og síðar að borða og njóta.

Gott ráð: Samkvæmt bláu fræðunum er betra fyrir heilsu, langlífi og vellíðan að fá sér vínglas með vinunum, kökusneið með fjölskyldunni en að reikna, pæla, og logga kaloríur í appið í símanum. Jurtin Rhodiola róar miðtaugakerfið og jafnar út kortisól ef þú ert undir mikilli streitu.

Arkitekt að árangri

Það skrollar enginn yfir sveltikúrum, fitubrennsludufti og magabeltum. En svoleiðis á Bláu svæðunum. Heldur eru það litlar daglegar heilsuvenjur og umhverfið þeirra sem stuðlar að betri heilsu.

Við eyðum óratíma og hugarorku að finna hið gullna matarplan í stað þess að skoða hvort umhverfið okkarsé að gera okkur auðveldara fyrir að taka heilsusamlegar ákvarðanir.

Vertu arkitekt að eigin árangri eins og Blábúar með meiri daglegri hreyfingu, betri svefni, tengslum við familíuna og öflugu félagslífi,

Dúndraðu inn meira af plöntufæði, meira af heilum afurðum og borða hægar í góðum félagasskap, Og slaaaaaakaðu á!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.