Nokkuð harður árekstur tveggja bíla varð nú á níunda tímanum á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar við Kirkjusand í Reykjavík. Enginn var fluttur á slysadeild en loka þurfti fyrir umferð um vettvang í nokkurn tíma.
Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að í fyrstu hafi verið útlit fyrir að um alvarlegt slys hefði verið að ræða og töluvert brak hefði verið á götunni. Betur fór þó en á horfðist og ekki þurfti að flytja neinn á slysadeild líkt og áður segir.
Áreksturinn var nokkuð harður en ekki er vitað um tjón á bílunum, að sögn varðstjóra. Þá var slökkvilið á leið af vettvangi nú skömmu fyrir klukkan níu. Opnað hefur verið fyrir umferð um slysstað á ný.