Leik Hauka og Skallagríms í Domino's deild kvenna í körfubolta sem átti að fara fram í dag hefur verið frestað vegna veikinda í leikmannahópi Borgnesinga.
Þrír lykilmenn Skallagríms, Keira Robinson, Emile Sofie Hesseldal og Maja Michalska, voru fjarverandi vegna veikinda þegar liðið steinlá fyrir Val, 107-41, á miðvikudaginn.
Þetta var fyrsti leikur Skallagríms eftir að liðið varð bikarmeistari á laugardaginn fyrir viku. Borgnesingar unnu þá KR-inga í úrslitaleik, 49-66.
Flensan virðist enn herja á leikmenn Skallagríms og því hefur leiknum við Hauka, sem átti að fara fram í dag, verið frestað til sunnudagsins 1. mars.
Haukar eru í 3. sæti Domino's deildarinnar en Skallagrímur í því fjórða. Tveimur stigum munar á liðunum.
Þrír leikir fara fram í Domino's deildinni í dag. Keflavík tekur á móti KR, Breiðablik og Snæfell eigast við í Smáranum og Grindavík sækir Val heim.
