Fótbolti

Segir ÍA hafa hafnað mettilboði í íslenskum fótbolta

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Ingi Gunnarsson er leikmaður U21-landsliðsins og stefnir á atvinnumennsku.
Hörður Ingi Gunnarsson er leikmaður U21-landsliðsins og stefnir á atvinnumennsku. vísir/vilhelm

FH-ingar vilja endurheimta bakvörðinn Hörð Inga Gunnarsson frá ÍA og eru tilbúnir að borga hærra verð en áður hefur verið greitt fyrir leikmann í félagaskiptum á milli tveggja íslenskra knattspyrnufélaga. Skagamenn vilja hins vegar halda leikmanninum.

Þetta fullyrðir Cesare Marchetti, umboðsmaður Harðar, í viðtali við Fótbolta.net. Segir umboðsmaðurinn að tilboð FH-inga hafi einnig falið í sér stóran hlut í söluverði Harðar verði hann keyptur annað frá FH en hann stefnir á að komast í atvinnumennsku.

Hörður Ingi átti fast sæti í liði ÍA á síðustu leiktíð eftir að hafa farið með liðinu upp úr 1. deild. Áður hafði hann leikið með Víkingi Ó. og HK en Hörður er eins og fyrr segir uppalinn FH-ingur. Hann á að baki 12 leiki fyrir U21-landslið Íslands.

Marchetti segir að þeir Hörður og faðir Harðar hafi ítrekað reynt að komast að samkomulagi við ÍA og að hann sé tilbúinn að gefa eftir umtalsverðar bónusgreiðslur sem umboðsmaðurinn segir að ÍA skuldi leikmanninum. 

„Leikmaðurinn vill taka næsta skref á ferlinum og snúa aftur í uppeldisfélag sitt. Í dag hafnaði ÍA nýju tilboði frá FH og sagði að leikmaðurinn væri ekki til sölu. Við vonum að ÍA geti lagt egóið og stoltið til hliðar og náð samkomulagi við FH með hagsmuni stráksins að leiðarljósi,“ sagði Marchetti við Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×