Skoðun

Það getur þetta enginn

Sara Óskarsson skrifar

Um daginn var fjallað í heimspressunni um viðtal við Blake Lively þar sem að hún talar opinskátt um viðbrigðin sem það hafði verið að eignast þriðja barnið;

„Það er eins og að fara úr tveimur í þrjú þúsund,“ sagði Gossip Girl leikkonan í morgunþættinum Good Morning America. Hún bætti því svo við að þau hjónin ættu svo mörg börn núna að það væri „sturlun“.

„Eitt sem ekkert, tvö sem tíu“ var sagt hér á árum áður um barneignir. En hvað segjum við um það þriðja, já og jafnvel það fjórða?

Það er að mínu mati allt of lítið gert úr því í samfélaginu hversu krefjandi foreldrahlutverkið er í raun og veru - og of lítið gert úr því hvernig það er þegar að kröfur samfélagsins bætast ofan á allt hitt:

Íþróttaleikir eldsnemma á sunnudagsmorgnum oft í öðru bæjarfélagi, bekkjarkvöld, mömmumorgnar, pabbamorgnar, tónleikar í skólanum, tónleikar í tónlistarskólanum, bekkjarafmæli, íþróttaferðalög, dósasöfnun, fjáraflanir, páska-, jólaföndurkvöld, þorrablót, öskudagur, hrekkjavaka, blár dagur, bleikur dagur, grænn dagur, dótadagur, bangsadagur, doppótturdagur (ég er ekki að skálda!)

Uppskeruhátíð, jól í skókassa, alþjóðlegi dagurinn, starfsdagur, „allir-veikir-dagurinn“, lúsaleit, rassarannsókn, heimalestur, heimanám, píanóæfing, námsmat, allskonar námskeið, kóræfing, kórtónleikar, aukanesti, sparinesti (en engar hnetur og ekkert gos og lítill sykur takk!), námskynning, forvarnakynning, tannverndarvika, ganga-í-skólann, hjóla-í-skólann, gul viðvörun/sækja snemma, skólaferðalag/mæta snemma og sækja seint.

Foreldraviðtöl (skólinn lokaður!), haustfrí, vetrarfrí, endalausir póstar; vikupóstur, helgarpóstur, lúsapóstur, ástundunar-, fimleika-, handbolta-, dans-, fótbolta-, já allskonar póstar OG SVO FRAMVEGIS.

Að öllu frábæra starfsfólki skólanna og íþróttafélaganna ólöstuðu, þá er samfélagsgerðin okkar í kringum það að eiga börn allt of hástefnt. Ofan á þetta bætist jú allt þetta venjulega sem þarf að gera líka; klipping, tannlæknir, augnlæknir, húðlæknir, sálfræðingur, heimilislæknir, brjóstagjöf/að hætta á brjósti, hætta á bleyju eftir atvikum osfr. tombóla, nammidagur, kósíkvöld, gæðastundir, ferðalög, jólin, páskar, afmælisveislur.

Almenn heimilisþrif, eldamennska, baða, hugga, lesa, svæfa, þvottur, innkaup, svefnlausar nætur... Og muna að vera gott og yfirvegað foreldri og njóta! Og helst rækta sambandið í leiðinni takk. Já og svo þarf að þéna pening inn á heimilið!

Er skrýtið að fólk sé að brenna út og örmagnast í hrönnum?

Nei.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×