Innlent

Messuhald og fermingar falla niður í vor

Sylvía Hall skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/baldur

Allt messuhald og fermingar í Þjóðkirkjunni falla niður í vor vegna samkomubanns sem sett var á í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá biskupi Íslands þar sem segir jafnframt að gert sé ráð fyrir sumarfermingum og haustfermingum.

Ákvörðunin er tekin með almannaheill í húfi og mun hún gilda á meðan samkomubann er í gildi. Ákvörðun biskups verður endurskoðuð í samhengi við frekari ákvarðanir stjórnvalda.

„Ljóst er að þessi ákvörðun setur þann einstaka viðburð sem ferming er hverjum einstaklingi og fjölskyldu hans í erfiða stöðu. Fermingardagur er tímamótaviðburður í lífi einstaklinga – um leið er dagurinn oft mikið ættar- og vinamót. Þetta er því þung ákvörðun að taka, en um leið afar mikilvæg og tekin með velferð fólks í huga,“ segir í tilkynningunni.

Ekki er ljóst hvenær farið verður aftur af stað með hefðbundið starf innan Þjóðkirkjunnar en í millitíðinni verður streymt frá messuhaldi á netinu þann tíma sem það fellur niður.

Prestar munu áfram gegna sálgæsluþjónustu með öllum þeim varúðarsjónarmiðum sem landlæknir hefur gefið út og hafa boð verið send til presta þess efnis. Þá segir í tilkynningunni að næstu dagar muni einkennast af snörum vendingum, nýjum upplýsingum og hröðum skiptingum.

Biskup mun ávarpa þjóðina í útvarpsmessu á sunnudag frá Reynivöllum í Kjós.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×