Fótbolti

Emil skoraði í sigri FH

Sindri Sverrisson skrifar
Emil Hallfreðsson í landsleik gegn Tyrkjum síðasta sumar.
Emil Hallfreðsson í landsleik gegn Tyrkjum síðasta sumar. vísir/getty

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson spilar hugsanlega með FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar. Hann lék með liðinu í æfingaleik gegn Fram í dag.

Emil kom inn á sem varamaður í leiknum og kom FH í 2-0 með skoti utan teigs, en það urðu lokatölur. Björn Daníel Sverrisson hafði komið FH-ingum yfir.

Emil hefur æft með FH undanfarnar vikur en hann er samningsbundinn ítalska félaginu Padova til 30. júní. Hlé hefur verið á keppni í ítalska fótboltanum síðan í mars vegna kórónuveirufaraldursins, en ákveðið hefur verið að hefja keppni að nýju í A- og B-deild í júní. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig málum verður háttað í C-deildinni.

Aðeins tvær vikur eru í að Íslandsmótið hefjist og eru íslensku liðin iðin við að spila æfingaleiki þessa dagan. Nú er einnig nýlokið leik Fjölnis og Grindavíkur þar sem 3-3 jafntefli varð niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×