Erlent

Mótmælendur beittir táragasi fyrir myndatöku Trump

Sylvía Hall og Samúel Karl Ólason skrifa
Forsetinn fór í myndatöku fyrir utan kirkjuna eftir ávarp sitt í kvöld.
Forsetinn fór í myndatöku fyrir utan kirkjuna eftir ávarp sitt í kvöld. Vísir/AP

Á meðan ávarp Donald Trump stóð yfir mátti vel heyra að mótmæli stóðu yfir í borginni. Háir hvellir heyrðust áður en forsetinn hóf ávarpið, sem gekk einna helst út á það að hann hygðist gera allt sem í valdi sínu stæði til þess að binda endi á óeirðirnar sem nú standa yfir í Bandaríkjunum.

Á meðan Trump hélt ávarpið skutu lögregluþjónar táragasi og hvellsprengjum að friðsömum mótmælendum við St. John's kirkjuna nærri Hvíta húsinu. Mótmælendur voru reknir af torginu sem kirkjan stendur við en hún hefur skemmst í óeirðum síðustu daga.

Forsetinn á leið úr Hvíta húsinu yfir að St. John's kirkjunni.Vísir/AP

Eftir að ávarpinu lauk sagðist Trump ætla á „afar sérstakan stað“ til þess að votta virðingu sína og átti hann við kirkjuna. Gekk Trump að kirkjunni þar sem hann stillti sér upp til myndatöku, með biblíu í hönd.

Svo virðist sem að mótmælendurnir hafi verið reknir af torginu með því eina markmiði að taka myndir af forsetanum þar. 

Mótmælendur voru ósáttir við framferði lögreglunnar, enda höfðu þeir verið að mótmæla á friðsaman hátt þegar lögreglan beitti táragasinu. 

Hér að neðan má sjá myndband af því þegar lögreglan beitir táragasinu á mótmælendur á torginu.

Útgöngubann hafði ekki tekið gidi þegar mótmælendurnir voru reknir í burtu með þessum hætti. Háttsemi þeirra var því ekki í andstöðu við fyrirmæli yfirvalda, heldur voru þeir líkt og áður sagði aðeins að mótmæla á friðsamlegan hátt. Þá var um það bil hálftími þar til útgöngubann tók gildi.

„Við vorum ekki að gera neitt,“ sagði einn mótmælandinn í sjónvarpsmyndavél eftir atvikið, sem hefur vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×