Innlent

Kuldakast eltir okkur inn í sumarið

Jakob Bjarnar skrifar
Einar Sveinbjörnsson er með veðurkortin á hreinu og hann segir að Vetur konungur sé ekki alveg búinn að sleppa tökunum þó komið sé vel inn í sumar.
Einar Sveinbjörnsson er með veðurkortin á hreinu og hann segir að Vetur konungur sé ekki alveg búinn að sleppa tökunum þó komið sé vel inn í sumar.

Svo virðist sem Íslendingar ætli að sleppa við hefðbundið páskahret en menn ættu þó að varast að fagna of snemma. Vetur konungur sleppir ekki tökum sínum á Íslandi svo glatt. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, sem er vakinn og sofinn yfir veðurkortunum, segir að nú sé kuldakast í vændum.

„Einkar erfiðum vetri lauk á vegum landsins strax eftir páska. Síðan þá hefur verið merkilega laust við nokkur hret sem orð er á gerandi. Vissulega frysti stundum, en í þurru veðri og gerði skammvinna föl á fjallvegum, en varla kuldakast að vori eins og slík eru oftast skilgreind,“ segir Einar á Facebooksíðu sinni. En bætur svo við:

„Við ætlum þó ekki alveg að sleppa þetta árið þó komið sé fram í júní!“

Á morgun nálgast kaldara loft úr norðri og aðfaranótt föstudags er spáð éljum norðaustanlands, að sögn Einars. Og hvítnar á vegum með hálku alveg niður undir 100 m hæð og jafnvel niður undir sjávarmál.

Á spákorti sem hér getur að líta sést þykktin og hiti í 850hPa fleti á föstudagsmorgni.

„5240m gefur til kynna frost og -10°C er spáð í 1.300 m hæð norðuaustanlands. Sæmilegasta kuldahret ef spáin gengur eftir. Enn kaldara verður aðfaranótt laugardagsins eftir að léttir til. Þá frystir allvíða frá Skagafirði og austur á land. Blika spáir þannig 3 stiga frosti á Akureyri kl. 3 laugardagnóttina og Veðurstofan er á svipuðu róli í sinni spá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×