Innlent

Flugfreyjufélagið og Icelandair funda í dag: „Það er töluvert á milli aðila“

Sylvía Hall skrifar
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair munu funda hjá Ríkissáttasemjara klukkan 14 í dag. Síðasti fundur í deilunni fór fram þann 20. maí síðastliðinn þar sem Flugfreyjufélagið hafnaði „lokatilboði“ Icelandair.

Samkvæmt lögum ber ríkissáttasemjara að boða til sáttafundar innan tveggja vikna frá viðræðuslitum, en í dag eru tvær vikur frá síðasta fundi. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segist vera bjartsýn fyrir fundinn í dag.

„Ég fer full bjartsýni á fundinn og er vongóð að við náum einhvern veginn að finna lausn á þessu máli, hvort það verði í dag eða á næstu dögum verður að koma í ljós.“

Hún segir síðustu tvær vikur hafa farið í það að finna leiðir til lausna og skoða hvernig félagið geti mætt Icelandair í viðræðunum. Verið sé að skoða allar leiðir í þeim efnum.

„Við erum að skoða allar leiðir okkar megin og erum sem fyrr með ríkan samningsvilja. Ég trúi því að samninganefnd Icelandair sé það líka,“ segir Guðlaug.

Að sögn Guðlaugar verður fróðlegt að sjá hver útgangspunkturinn í viðræðum dagsins verður í ljósi þess að síðasti fundur endaði með því að Icelandair hafnaði móttilboði Flugfreyjufélagsins. Enn sé nokkuð langt í land.

„Það er töluvert á milli aðila en það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn á framhaldið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×