NBA stórstjörnurnar Stephen Curry og Klay Thompson tóku ásamt fleiri liðsfélögum í Golden State Warriors þátt í mótmælagöngu á götum Oakland borgar.
Örlög Georgo Floyd hafa hneykslað marga út um allan heim enda enn eitt dæmið um harða og ómanneskjulega meðferð hvítra lögreglumanna á svörtum mönnum. Floyd kafnaði eftir að hvítur lögreglumaður lá með hné sitt á hálsi hans í langan tíma.
Mikið hefur verið um mótmæli í Bandaríkjunum frá því að myndbandið með meðferðinni á Georgo Floyd komst í fréttirnar. Mörgum þykir löngu kominn tími á að taka á kynþáttafordómum í Bandaríkjunum og fjöldi NBA leikmanna hafa ekki látið sitt eftir liggja.
Tvær af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar sem hafa tekið þátt í slíkum mótmælum eru stórskytturnar Stephen Curry og Klay Thompson.
Mótmælin voru undir nafninu „The Walking in Unity“ og voru friðsamleg. Juan Toscano-Anderson, framherji Golden State Warriors liðsins, skipulagði gönguna og hún fór fram í kringum Merrit vatnið. Juan Toscano-Anderson er 27 ára gamall og náði að spila þrettán leiki með Golden State fyrir kórónuveiruhlé.
Það var einmitt á sama stað sem Golden State Warriors hefur haldið sigurhátíðir sínar eftir fjóra síðustu NBA-titla sína.
Eins og sjá má hér fyrir ofan þá mætti Stephen Curry með konu sinni Ayesha og þar má einnig sjá Klay Thompson.