Skoðun

Her­vald til heima­brúks í vest­rænu lýð­ræðis­ríki

Vilborg Ása Guðjónsdóttir skrifar

Í upphafi vikunnar hótaði Bandaríkjaforseti að beita her landsins til að bæla niður mótmælin sem hafa brutist út víðsvegar um landið gegn rasisma og lögregluofbeldi eftir að lögregluþjónn varð blökkumanninum George Floyd að bana í Minneapolis í síðustu viku.

Það er alvanalegt að einræðisherrar hóti að beita mótmælendur heima fyrir hervaldi, í ríkjum þar sem hvers kyns andóf gegn ríkjandi stjórnvöldum er barið niður af mikilli hörku. Að forseti lýðræðisríkis, og það Bandaríkjanna, leiðtogaríkis hins vestræna heims, hóti slíku eru hins vegar stórtíðindi og mikið áhyggjuefni fyrir framtíð lýðræðislegra gilda á heimsvísu.

Löggjöfin sem Trump hótar að beita er frá árinu 1807. Á síðastliðnum 50 árum hefur henni tvisvar verið beitt, síðast fyrir 28 árum, og í báðum tilvikum að beiðni ríkisstjóra sem töldu sig ekki ráða við aðstæður í heimaríkjum sínum. Í hvorugu tilfelli var um að ræða að mestu friðsöm mótmæli heldur miklu alvarlegri óeirðir, átök og/eða gripdeildir og eignaspjöll.

Þegar herinn er kominn í spilið er enginn greinarmunur gerður á friðsömum og ófriðsömum mótmælendum. Markmið hersins verður að brjóta á bak mótmælin með öllum ráðum. Þess vegna er umræddu úrræði svona sjaldan beitt og þess vegna er stór hluti almennings í Bandaríkjunum með miklar áhyggjur af því að þessi stefna Trumps raungerist. Að beita hervaldi mundi enn fremur fyrirgera öllu því trausti sem þó hefur verið byggt upp milli lögregluyfirvalda og minnihlutahópa í Bandaríkjunum síðastliðna áratugi, auka enn á sundrungu meðal bandarísku þjóðarinnar og rýra traust almennings og allrar heimsbyggðarinnar á lýðræði, frelsi og grundvallarmannréttindum í Bandaríkjunum. Afleiðingar þessa gætu orðið afdrifaríkar fyrir öll ríki sem aðhyllast og berjast fyrir lýðræðislegum gildum, þar á meðal okkar eigið.

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×