Erlent

„Þegar hann gat ekki hlaupið lengur, þurfti hann að berjast“

Samúel Karl Ólason skrifar
Wanda Cooper-Jones, móðir Ahmaud Arbery, og S. Lee Merritt, lögmaður fjölskyldunnar.
Wanda Cooper-Jones, móðir Ahmaud Arbery, og S. Lee Merritt, lögmaður fjölskyldunnar. AP/Stephen B. Morton

„Ég ímynda mér oft hvernig síðustu mínútur lífs sonar míns voru. Ég ímyndaði mér ekki að þær hefði verið svona erfiðar,“ sagði Wanda Cooper, móðir Ahmaud Arbery. Hann var skotinn til bana þegar hann fór út að skokka í Georgíu í Bandaríkjunum í febrúar.

Þrír menn voru handteknir vegna dauða Arbery, feðgarnir Travis og Gregory McMichael og William Bryan. Þeir eltu Arbery eftir að þeir sáu hann skokka í gegnum hverfið þeirra. Arbery var skotinn til bana 23. febrúar en þremenningarnir voru ekki handteknir fyrr en 7. maí eftir að málið vakti heimsathygli þegar myndband sem Bryan tók fór í umferð á samfélagsmiðlum.

Sérstakur málflutningur fór fram í vikunni og hefur vitnisburður mannanna þriggja varpaði frekari ljósi á dauða Arbery.

Meðal annars hefur komið í ljós að mennirnir eltu Arbery um víðan völl og óku þeir nokkrum sinnum fyrir hann. Skömmu áður en Travis McMichael skaut Arbery til bana ók Bryan á hann.

Bryan segir að Arbery hafi reynt að hlaupa undan þeim og meðal annars stokkið ofan í skurð til að komast undan mönnunum þremur. Á einum tímapunkti varð hann fyrir bíl Bryan og sneri við. Þá fór Travis úr bílnum sem feðgarnir voru í og til átaka kom á milli hans og Arbery, sem endaði með því að Travis skaut Arbery þrisvar sinnum með haglabyssu.

Í samtali við Chris Cuomo á CNN í gærkvöldi sagði Wanda Cooper að sonur sinn hafi reynt að hlaupa til að bjarga lífi sínu. Þegar hann hafi ekki getað hlaupið lengra hafi hann reynt að berjast fyrir lífi sínu. Þá hafi hann verið myrtur.

Lee Merritt, lögmaður fjölskyldunnar segir málflutninginn hafa sýnt fram á að mennirnir þrír hafi vísvitandi myrt Arbery og að hatur hafi drifið þá áfram.

Cooper sagðist einnig vonast til þess að dauði sonar hennar og George Floyd muni leiða til varanlegra breytinga í Bandaríkjunum. Þær séu nauðsynlegar svo fleiri þeldökkir Bandaríkjamenn deyi ekki á þennan hátt.

Hægt er að horfa á viðtalið hér að neðan.


Tengdar fréttir

Maðurinn á bak við myndavélina ákærður

William Bryan Jr., maðurinn sem tók upp atburðarásina þegar hinn 25 ára gamli Ahmaud Arbery var myrtur í Georgíuríki í febrúar síðastliðnum, hefur verið ákærður fyrir aðild að morðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×