Fótbolti

Balotelli verður líklega rekinn frá Brescia

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mario Balotelli í leik með Brescia í vetur.
Mario Balotelli í leik með Brescia í vetur. vísir/getty

Líklegt þykir að ítalska úrvalsdeildarliðið Brescia muni rifta samningi Mario Balotelli við félagið vegna lélegrar mætingar kappans á æfingar.

Nokkrir ítalskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að eigandi Brescia, Massimo Cellino, hefði sent Balotelli bréf þar sem hann óskaði eftir því að hann myndi samþykkja riftun á þriggja ára samningi.

Þó Balotelli sé samningsbundinn Brescia til 2022 er riftunarákvæði í samningnum sem kveður á um að Balotelli sé laus allra mála fari svo að félagið falli úr Serie A, sem allt stefnir í.

Þessi 29 ára gamli sóknarmaður er á sínu fyrsta tímabili með Brescia en hann hefur skorað 5 mörk í deildinni á þessari leiktíð. Hann hefur mætt illa á æfingar eftir að þær hófust að nýju í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Balotelli þótti einn efnilegasti leikmaður heims á sínum tíma þegar hann hóf að leika fyrir Internazionale 17 ára gamall. Ferillinn hefur þó aldrei náð þeim hæðum sem búist var við þó Balotelli hafi leikið með félögum á borð við Manchester City, Liverpool og AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×