Erlent

Rifu niður styttu af hershöfðingja Suðurríkjanna

Andri Eysteinsson skrifar
Styttan sem um ræðir af Wickham hershöfðingja.
Styttan sem um ræðir af Wickham hershöfðingja. Vísir/AP

Lítill hópur mótmælanda reif niður styttu af suðurríkjaleiðtoganum Williams Carter Wickham hershöfðingja sem stóð í borginni Richmond í Virginíu.

Styttan var rifin niður af stalli sínum eftir að friðsamleg mótmæli höfðu farið fram í borginni á laugardaginn. Politico segir enn óljóst hvort miklar skemmdir hefðu verið gerðar á styttunni.

Band var bundið um styttuna sem hefur staðið í Monroe-garðinum í Richmond frá árinu 1891, var hún dregin niður, máluð rauð og var að lokum migið á styttuna.

Styttur af leiðtogum Suðurríkjanna hafa verið mikið í umræðunni á síðustu árum og þykir mörgum það óviðeigandi að þær skuli fá að standa óáreittar. Sérstaklega var umræðan mikil eftir skotárás fjöldamorðingjans Dylann Roof í Suður-Karólínu 2015 og mótmæla hvítra þjóðernissinna í borginni Charlottesville í Virginíu 2017.

Árið 2017 kölluðu afkomendur Wickham hershöfðingja eftir því að styttan yrði fjarlægð og í síðustu viku tilkynnti Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu að styttan af hershöfðingjanum Robert E. Lee yrði fjarlægð eins fljótt og unnt væri en hún er einn fimm suðurríkjaminnisvarða á sama blettinum í borginni.

Þar hafa mótmæli gegn kynþáttahatri og lögregluofbeldi í kjölfarið á morðinu á George Floyd í Minneapolis helst geisað í borginni. Hafa stytturnar verið nýttar af mótmælendum til þess að skrifa slagorð sín um að binda enda á kynþáttahatri og lögregluofbeldi.

Styttan af Lee er eina styttan sem er í eigu ríkisins en aðrar fjórar styttur tilheyra Richmond borg. Borgarstjóri Richmond, Levar Stoney hefur þegar tilkynnt um áform sín um að láta fjarlæga stytturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×