Erlent

Mitt Romney á meðal mótmælenda í Washington

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mitt Romney er lítt hrifinn af Donald Trump.
Mitt Romney er lítt hrifinn af Donald Trump. AP/Susan Walsh)

Mitt Romney, öldungardeildarþingmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, var einn af um þúsund mótmælendum sem marseruðu í átt að Hvíta húsinu í morgunsárið í Washington í Bandaríkjunum.

Romney, sem hefur verið afar gagnrýninn á stefnu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, var hluti af hópi um þúsund kristinna mótmælenda sem gengu í átt að Hvíta húsinu í dag til þess að mótmæla morðinu á George Floyd, lögregluofbeldi og kynþáttafordómum. Romney ræddi stuttlega við blaðamann Washington Post sem spurði þingmanninn af hverju hann tæki þátt í mótmælunum

„Það þarf að finna leið til að binda enda á ofbeldi og hrottaskap og að tryggja að fólk skilji að svört líf skipta máli,“ sagði Romney.

Romney er einn af háttsettum Repúblikönum sem segjast ekki geta stutt Trump en á meðal þeirra eru George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og Colin Powell, sem starfaði sem utanríkisráðherra í forsetatíð Bush. Powell hefur raunar sagst ætla að styðja Joe Biden, forsetaframbjóðenda Demókrata í forsetakosningunum í haust.

Ekkert lát er á mótmælum í Bandaríkjunum vegna dauða George Floyd. Gríðarlega fjölmenn mótmæli voru haldin um gervöll Bandaríkin í gær og þau virðast ætla að halda áfram í dag. Þannig eru á annað þúsund manns fyrir utan Trump International Hotel í New York þar sem stefnu forsetans er mótmælt.

Mótmælin hafa að mestu farið friðsamlega fram og hafa yfirvöld dregið úr viðbúnaði vegna þeirra. Sagði Donald Trump meðal annars á Twitter í morgun að hann hefði fyrirskipað að sveitir þjóðvarnarliðsins myndu hefja brottflutning frá Washington. Þá hefur borgarstjóri New York-borgar, Bill de Blasio, hefur ákveðið að afnema útgöngubann í borginni, einum degi á undan áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×