Erlent

Borgarfulltrúar í Minneapolis vilja leggja lögregluna niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mótmælendur víða um Bandaríkin krefjast endurbóta á lögreglunni þar í landi.
Mótmælendur víða um Bandaríkin krefjast endurbóta á lögreglunni þar í landi. AP/Matt York

Níu borgarfulltrúar í Minneapolis í Bandaríkjunum hafa heitið því að lögreglan í borginni verði lögð niður.

Í frétt New York Times segir að borgarfulltrúarnir séu með nægjanlegan meirihluta til þess að koma í veg fyrir að borgarstjórinn geti beitt neitunarvaldi sínu, nái tillaga borgarfulltrúanna fram að ganga.

Borgarfulltrúarnir heita því að í staðinn fyrir lögregluna verði komið á fót nýju kerfi almannaöryggis sem unnið verði í sátt við samfélagið í borginni. Nánari útlistun liggur þó ekki fyrir.

Minneapolis hefur orðið miðpunktur mótmæla í Bandaríkjunum vegna lögregluofbeldis og kynþáttafordóma eftir dauða George Floyd, óvopnaðs blökkumanns, í haldi lögreglunnar í Minneapolis í maí. Lögreglumaðurinn sem hélt honum niðri og þrengdi að öndunarvegi hans hefur verið ákærður fyrir morð og aðrir lögreglumenn sem voru með honum á vettvangi hafa verið ákærðir fyrir aðild sína að málinu.

Borgarfulltrúarnir segja að lögreglan í borginni sé komin á það stig að ekki sé hægt að endurbæta hana og því þurfi einfaldlega að leggja hana niður. Borgarfulltrúarnir telja sig hafa nægjanlegan fjölda atkvæða í borgarstjórn til þess að koma í veg fyrir að Jacob Frey, borgarstjóri borgarinnar, geti beitt neitunarvaldi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×