Fótbolti

Ríkasti fótboltamaður heims spilar með varaliði Leicester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Faiq Bolkiah í leik með unglingaliði Leicester City i Meistaradeild ungmannaliða.
Faiq Bolkiah í leik með unglingaliði Leicester City i Meistaradeild ungmannaliða. Getty/Plumb Images

Knattspyrnugoðin Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru báðir búnir að vera lengi með gríðarlegar háar tekjur og þeir eru líka með fjölda mjög hagstæðra auglýsingasamninga. Þeir hafa því báðir byggt um mikið ríkidæmi.

Það hjálpar þeim þó ekki til að ná efsta sætinu á listanum yfir ríkustu fótboltamenn heimsins í dag. Spænska íþróttablaðið Marca tók listann saman og niðurstaðan er athyglisverð.

Það er nefnilega 22 ára miðjumaður hjá varaliði Leicester City sem ber höfuð og herðar yfir aðra fótboltamenn heims þegar kemur að ríkidæmi.

Leikmaðurinn er Faiq Bolkiah og hefur verið hjá Leicester City frá árinu 2016. Hann á þó enn eftir að spila leik fyrir aðallið félagsins. Faiq Bolkiah er aftur á móti fyrirliði landsliðsins en hann kemur frá Brúnei sem er smáríki á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu.

Bolkiah er langt frá því að vera óbreyttur í heimalandi sínu því hann er frændi soldánsins Hassanal Bolkiah og eigur hans eru metnar á 20 milljarða Bandaríkjadala eða meira en 2659 milljarða íslenskra króna.

Það er reyndar ekki alveg á hreinu hvað Faiq á mikið sjálfur og því er það svolítið ósvífið hjá Marca mönnum að setja hann í efsta sætið. Það er hins vegar alveg pottþétt að hann hefur aðgengi að gríðarlegum fjármunum hjá fjölskyldu sinni.

Faðir Jefri Bolkiah er sagður eiga að minnsta kosti 2300 bíla og þá var frægt þegar hann borgaði fjórtán milljónir evra, yfir tvo milljarða íslenskra króna, til að fá Michael Jackson skemmta í fimmtugsafmælinu sínu.

Marca segir meðal annars frá því að eitt aðaláhugamál Faiq Bolkiah, sem er fæddur í Los Angeles, er að leika sér í fótbolta með gæludýri sínu sem er tígrisdýr.

Cristiano Ronaldo er í öðru sæti en hans eigur eru metnar á 450 milljónir Bandaríkjadala, langt fyrir neðan umræddan Faiq Bolkiah en 50 milljónum á undan Lionel Messi sem er í þriðja sætinu.

Næstu menn eru síðan Zlatan Ibrahimovic og Neymar en þeir Wayne Rooney og Gareth Bale eru síðan í sjötta og sjöunda sæti á listanum en tíu efstu menn má sjá hér fyrir neðan.

Tíu ríkustu fótboltamenn heims samkvæmt Marca:

  • 10. Paul Pogba, Man Utd (85 milljónir Bandaríkjadala)
  • 9. Eden Hazard, Real Madrid (100 milljónir Bandaríkjadala)
  • 8. Andres Iniesta, Vissel Kobe (120 milljónir Bandaríkjadala)
  • 7. Gareth Bale, Real Madrid (125 milljónir Bandaríkjadala)
  • 6. Wayne Rooney, Derby County (160 milljónir Bandaríkjadala)
  • 5. Neymar, Paris Saint-Germain (185 milljónir Bandaríkjadala)
  • 4. Zlatan Ibrahimovic, AC Milan (190milljónir Bandaríkjadala)
  • 3. Lionel Messi, Barcelona (400 milljónir Bandaríkjadala)
  • 2. Cristiano Ronaldo, Juventus (450 milljónir Bandaríkjadala)
  • 1. Faiq Bolkiah, Leicester (20 milljarðar Bandaríkjadala)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×