Sport

Katrín Tanja horfir bjartsýn til framtíðar: Löngu kominn tími á þetta og nú endurbyggjum við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir vill horfa jákvætt á framtíðina eins og sést á þessari mynd af sér sem hún setti inn á Instagram reikninginn sinn.
Katrín Tanja Davíðsdóttir vill horfa jákvætt á framtíðina eins og sést á þessari mynd af sér sem hún setti inn á Instagram reikninginn sinn. Mynd/Instagram

Íslenska CrossFit konan Katrín Tanja Davíðsdóttir fór fyrir CrossFit heiminum í viðbrögðum við rasisma eigandans Greg Glassman. Hún þorði að standa upp og gagnrýna eiganda og einræðisherra íþróttarinnar sinnar. Í framhaldinu hefur flóðbylgja vægðarlausar gagnrýni og afneitunar lent á fílabeinsturni Greg Glassman.

Katrín Tanja lýsti því hversu mikið hún skammaði sín fyrir að vera hluti af samtökum sem væru með svona forystu. Í framhaldinu hafa CrossFit samtökin misst hvern styrktaraðilann á fætur öðrum og hundruð stöðva hafa sagt skilið við CrossFit samtökin.

CrossFit vörumerkið er vissulega í hættu en CrossFit samfélagið hefur sameinast í að krefjast breytinga og það lítur út að fólk innan þess finni sér nýjan samastað án Greg Glassman hvort sem það verður undir merkjum CrossFit en einhvers annars.

Katrín Tanja hefur nú skrifað annan pistil þar sem hún horfir til framtíðar og vill sjá sóknarfæri fyrir íþróttina sína.

„Uppáhaldið mitt í íþróttinni okkar er fólkið sjálft,“ skrifaði Katrín Tanja Davíðsdóttir.

„Það var löngu kominn tími á það sem við erum að ganga í gegnum núna. Þetta var nauðsynlegt fyrir okkur að fara í gegnum þetta til að geta vaxið enn frekar. Íþróttinni okkar og samfélaginu hefur ekki verið stýrt rétt í mörg ár og það var kominn tími til að opinbera það,“ skrifaði Katrín Tanja.

„Ég sé þetta sem frábært tækifæri fyrir okkur til að endurbyggja. Við getum breytt hlutunum til hins betra. Þetta er tækifæri til að koma með nýja frábæra forystu inn og sjá til þess að sportið sé fyrir alla,“ skrifaði Katrín Tanja.

„Treystið mér. Þetta sport verður betra en það hefur nokkurn tímann verið og við getum gert það saman. Þetta þurfum við að gera öll í sameiningu en við getum það saman. Breytum hlutunum,“ skrifaði Katrín Tanja en það má sjá pistil hennar hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×