Enski boltinn

Æfinga­leikur Man. United gegn Stoke flautaður af á síðustu stundu vegna kórónu­veiru­smits

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frá æfingu Man. United á dögunum, á Carrington æfingasvæðinu, þar sem leikurinn átti að fara fram.
Frá æfingu Man. United á dögunum, á Carrington æfingasvæðinu, þar sem leikurinn átti að fara fram. vísir/getty

Það var mikil dramatík á æfingasvæði Manchester United í gær er liðið hafði skipulagt æfingaleik gegn Stoke. Kórónuveirusmit greindist hjá Stoke og því var hætt við leikinn, sem átti að fara fram bak við luktar dyr.

United átti að mæta B-deildarliðinu á æfingasvæði sínu, Carrington, í gær. Samkvæmt heimildum enskra miðla í gær fékk Stoke meldingu frá ensku B-deildinni að einn úr leikmannahópnum hafi greinst smitaður rétt eftir að þeir komu á æfingasvæði United.

Því voru bæði lið sammála um það að best væri að hætta við leikinn og leikmönnum Stoke var skipað að flýta sér til síns heima. United spilaði þó leik í gær því þeir ákváðu að skipta leikmannahópnum í tvö lið og spila „æfingaleik“.

Fréttir bárust svo af því síðar í gær að Michael O’Neill, stjóri Stoke, hafi verið greindur með veiruna. United staðfestir að enginn úr leikmannahópnum né þjálfarateyminu hafi átt í samtölum við O’Neill.

Það eru níu dagar þangað til að Manchester United byrjar að spila aftur í ensku úrvalsdeildinni en þeir mæta Tottenham á föstudaginn eftir rúma viku. Enska B-deildin fer af stað síðar í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×