Fótbolti

Gleymdi að senda inn læknis­vott­orð og var ekki hleypt inn á æfinga­svæðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dvöl Mario Balotelli hjá Bresica hefur ekki verið merkileg.
Dvöl Mario Balotelli hjá Bresica hefur ekki verið merkileg. vísir/getty

Mario Balotelli heldur áfram að koma sér í fréttirnar fyrir misgáfulegar uppákomur en í gærmorgun mætti Ítalinn á æfingasvæði Brescia en honum var ekki hleypt inn á æfingasvæðið.

Um helgina bárust fréttir af því að Brescia hafi ákveðið að reka hann frá félaginu eftir röð af atburðum þar sem hann á meðal annars ekki að hafa mætt á æfingar. Uppákoman í gær vakti þar af leiðandi mikla athygli því hann var mættur á æfingasvæðið eftir fréttir helgarinnar.

„Nú segja þeir örugglega að ég nenni ekki að æfa,“ á Balotelli að hafa sagt þegar hann var spurður út í atvikið. Félagið segir þó að það liggi önnur skýring þar á.

La Gazetta dello Sport greinir frá því að félagið hafi útskýrt það að Balotelli hafi gleymt að skila inn pappírum um að hann væri ekki lengur veikur. Því vildi Brescia ekki taka áhættuna á því að hleypa honum inn á æfingasvæðið.

Balotelli og hans teymi segir þetta af og frá en fjölmiðillinn hefur heimildir fyrir því að vottorðið hafi verið sent inn rétt eftir níu á mánudagskvöldið. Verður því fróðlegt að sjá hvernig þetta endar.

Brescia er í síðasta sæti Seriu A en Birkir Bjarnason er samningsbundinn félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×