Skoðun

Þurfa Banda­ríkin hjálp?

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Hvað er að gerast hjá stóra nágranna okkar í vestri? Bandaríkin eru flókið land sem virðist vera komið á villigötur. Skoðum 10 punkta um landið sem ég hef tekið saman:

1. Réttarríkið í Bandaríkjunum virðist vera með innbyggðum rasisma. Svartir menn eru fimm sinnum líklegir til að vera dæmdir í fangelsi en hvítir og eru þeir miklu líklegir til að vera skotnir af lögreglu. Í yfir 90% sakamála er „samið“ um dóm í stað þess að fara í réttarhöld. Þessir „samningar“ eru oft gerðir undir hótun um miklu þyngri refsingu sé farið í réttarhöld.

2. Bandaríkin hafa verið í stríðsátökum einhvers staðar í heiminum í meira en 200 ár, eða um 90% af þeim tíma sem landið hefur verið til en það eru rúm 240 ár. Um 40% af hernaðarútgjöldum heimsins eru í Bandaríkjunum en þar búa þó einungis 4% af jarðarbúum.

3. Almenningur hefur ekki aðgang að gjaldfrjálsri heilsugæslu. Þar er eitt dýrasta heilbrigðiskerfið í heiminum.

4. Háskóla- og leikskólanám eru yfirleitt mjög dýrt. Slíkt hefur áhrif á lífskjör, kynbundinn launamun og tækifæri í lífinu.

5. Vinnulöggjöfin er langt frá því sem þekkist í Evrópu, réttindi verkafólks lítil og vinnutími launþega er langur.

6. Bandaríkin eru eitt af fáum ríkjum heims þar sem enn eru dauðarefsingar. Víða eru dómarar og saksóknarar kjörnir í kosningum sem hefur þær afleiðingar að þeir hegða sér oft eins og stjórnmálamenn.

7. Í landinu ríkir mikill ójöfnuður, ekki síst eigna. Landið er þekkt fyrir mikinn skort á tækifærum á að komast úr fátækt.

8. Mikil mengun er í Bandaríkjunum en þau eru ábyrg fyrir um 15% af mengun jarðar þótt þeir séu aðeins rúmlega 4% af jarðarbúum.

9. Bandaríkin eru eftirbátar margra annarra þjóða í jafnréttismálum, ekki síst í viðskiptum og stjórnmálum, en tæplega 80% þingmanna eru karlar.

10. Landið býr við einna hæstu glæpatíðni í heimi og fjöldaskotárásir eru reglulegar. Víða er fangelsiskerfið einkarekið sem hefur hag af því að hafa sem flesta fanga.

Ég bjó í New York um tíma. Borgin er skemmtileg og fólkið þar er hjálpsamt. Þótt landið hafi mjög margt gott að bjóða þá er landið einnig meingallað eins og hér er rakið. Þurfa Bandaríkin kannski einhverja hjálp?

Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×