Íslenski boltinn

Túfa sendi Heimi „frá­bært SMS“ sem skilaði honum starfinu hjá Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Túfa var leikmaður, aðstoðarþjálfari og þjálfari KA á Akureyri áður en hann stýrði Grindavík á síðustu leiktíð.
Túfa var leikmaður, aðstoðarþjálfari og þjálfari KA á Akureyri áður en hann stýrði Grindavík á síðustu leiktíð. vísir/ernir

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, segir að upphafið að því að hann réði Srdjan Tufegdzic sem aðstoðarþjálfara sinn hjá Val hafi verið SMS sem hann fékk frá Túfa, eins og hann er oftast kallaður.

Heimir var gestur Hjörvars Hafliðasonar í Dr. Football þættinum í gær þar sem hann ræddi um komandi tímabil en Valsmenn spila opnunarleik Pepsi Max-deildarinnar á laugardagskvöldið er þeir spila við KR á Hlíðarenda.

Heimir hefur í gegnum tíðina þekkt sína aðstoðarmenn inn og út en hann fór nýja leið hjá Val er hann réði Túfa sem sinn aðstoðarmann. Áður hafði Túfa starfað hjá KA og Grindavík hér á landi.

„Ég þekkti Túfa mjög lítið. Ég hafði spjallað við hann þegar hann var með KA-liðið 2017. Þá komu þeir og spiluðu við okkur í Krikanum og svo fór maður norður og spilaði við KA. Ég spjallaði bara við hann í kringum þessa leiki en annars ekki neitt,“ sagði Heimir.



„Þetta gerðist þannig að ég sat heima hjá mér eitt kvöldið og hann sendi mér frábært SMS. Ég var hrikalega ánægður með það og svaraði því að ég myndi hringja í hann daginn eftir sem ég gerði. Við spjölluðum saman og hann var með flottar hugmyndir um fótbolta. Við náðum vel saman.“

Heimir segir að eftir samtalið vildi hann vinna með Túfa og það hafi gengið vel hingað til.

„Í framhaldinu ákváðum við að vinna saman og hingað til hefur hann staðið sig frábærlega. Hann er gríðarlega duglegur og vel lesinn. Hann þekkir leikinn vel og hefur mikla ástríðu fyrir leiknum. Hann hefur komið mjög sterkur inn í þetta. Hann er líka frábær í viðtölum,“ bætti Heimir við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×