Eftir um fjögurra mánaða hnút virðist loks hilla undir nýja ríkisstjórn á Írlandi. Svo virðist sem að stóru flokkarnir tveir Fine Gael og Fianna Fáil, muni mynda nýja ríkisstjórn með Græningjum.
Niðurstöður þingkosninganna 8. febrúar síðastliðinn leiddi til mikillar óvissu í írskum stjórnmálum, en Fine Gael, Fianna Fáil og Sinn Féin náðu allir um 20 prósent fylgi.
Vinstri þjóðernisflokkurinn Sinn Féin reyndi fyrst að mynda nýjan meirihluta vinstriflokka, en án árangurs. Flokkurinn leitaði svo til flokka lengra til hægri, en einnig án árangurs.
Nú lítur út fyrir að frjálslyndi flokkurinn, Fianna Fáil, íhaldsflokkurinn Fine Gael og Græningjar séu á góðri leið með að ná samkomulagi um stjórnarsáttmála en viðræður halda áfram í dag.
Viðræður milli flokkanna hafa staðið í rúman mánuð. Að sögn Irish Times hafa Græningjar náð því í gegn að ný stjórn leggi mikið fjármagn í almenningssamgöngur og að bæta aðstæður hjólreiðafólks. Sömuleiðis að skattar á losun koldíoxíðs verði hækkaðir og að ráðist verði í gerð nýrra vindmyllugarða á hafi úti. Þá skuli einnig ráðast í rannsóknir á fýsileika háhraðalesta milli stærstu borga eyjarinnar.
Þá hafi Fianna Fáil náð því í gegn að útgjöld til heilbrigðismála skuli aukin og að ráðist verði í byggingu um 50 þúsund nýrra félagslegra íbúða. Fine Gael náði því svo í gegn að auka sveigjanleika þegar kemur að rekstri leikskóla, svo eitthvað sé nefnt.