Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfum Garðabæjar um greiðslu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar á árunum 2013-2015 í Hæstarétti. Garðabær reisti mál sitt á því að framlög til heimilisins frá ríkinu með daggjöldum hafi ekki nægt fyrir rekstrarkostnaði.
Íslenska ríkið og Garðabær gerðu með sér samning í maí 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Garðabæ. Þar var meðal annars tekið fram að samningur yrði gerður um rekstur hjúkrunarheimilisins en hann var aldrei gerður. Íslenska ríkið skuldbatt sig því aldrei til greiðslu alls kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimilisins og vanefndi ríkið því ekki greiðsluskyldu sína gagnvart Garðabæ.
Þá taldi Hæstiréttur að íslenska ríkið hefði axlað skyldur sínar að lögum gagnvart Garðabæ með því að tryggja sveitarfélaginu fjárveitingar í fjárlögum á árunum 2013-2015. Málið var tekið upp í Hæstarétti eftir að því var áfrýjað af Garðabæ eftir að dómur féll í Landsrétti 22. nóvember síðastliðinn. Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti og Garðabæ gert að greiða málskostnað íslenska ríkisins.
Þá hafði málið einnig verið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og féll dómur þar 15. nóvember 2018 og var íslenska ríkið sýknað af kröfu Garðabæjar. Krafa Garðabæjar var sú að íslenska ríkið greiddi 319.254.632 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum og verðtryggingu.