Skoðun

Bæjar­stjórinn með um­ferðar­flautuna

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Þetta kjörtímabil hefur ekki verið gott fyrir meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, tekjur hafa ekki dugað fyrir útgjöldum og bærinn hefur margfaldað skuldir sínar. Vegna ofurtrú á því að Seltirningar megi ekki borga jafn hátt útsvar og íbúar í Kópavogi og Hafnarfirði þá hefur meirihlutinn gripið til sársaukafullra aðgerða. Leikskólagjöld, matarkostnaður eldri borgara og leiga á félagslegu húsnæði hefur hækkað um tugi prósenta. Skorið var niður í grunnskólanum svo bekkir stækka, í tónlistarskólanum svo biðlisti lengist, 40% af stöðugildum félagsmiðstöðvarinnar voru skorin út, starfsfólki sagt upp og ofan á þetta bætist nú Covid ástandið.

Þessar aðgerðir hafa ekki aukið stuðning við Sjálfstæðisflokkinn á Seltjarnarnesi sem hefur verið minnkandi í síðustu kosningum en flokkurinn fékk í fyrsta sinn frá stofnun sveitarfélagsins minnihluta atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum 2018.

En þegar öll spjót standa að bæjarstjóranum þá getur verið gott að eiga patent lausnir á lager til að dreifa umræðunni og að þessu sinni var blásið í umferðarflautuna. Bæjarstjórinn fór í blöðin og kvartaði yfir viðtali við formann skipulagsnefndar þar sem kom fram að áætlað væri að setja upp 6 ljósastýrðar gönguþveranir yfir Eiðisgrandann. Umferðarflautan virkaði vel og áður en maður vissi af voru stjörnulögmenn á Seltjarnarnesi farnir að rífast við sjónvarpsmenn úr Reykjavík og að lokum fór umræðan að sjálfsögðu út í það að tala um umræðuna sjálfa og að hún væri allt of harkaleg.

Ég viðurkenni að þrátt fyrir að ég sé sammála um að bæta mætti tengingar fyrir gangandi vegfarendur á Eiðisgrandanum þá þótti mér 6 umferðarljós ansi vel í lagt á stuttum kafla. Ég hafði því samband við borgina og kom þá í ljós að hér var á ferð misskilningur á milli blaðamanns og borgarfulltrúans og þessar 6 gönguþveranir séu aðeins þær gangbrautir sem eru nú þegar til staðar og ein þeirra er ljósastýrð og hefur verið síðastliðin 7 ár.

Helsta inntak í gagnrýni bæjarstjórans á borgina var skortur á samráði og samtali en eins og þetta mál sýnir, að þá er mikilvægt að samtalið sé opið í báðar áttir og hefði bæjarstjórinn getað hlíft íbúum bæjarins við óþarfa áhyggjum og karpi ef hún hefði farið eftir eigin ráðum og átt samtal við borgina áður en hún rauk í blöðin. En á meðan við ræðum um gönguljós er ekki talað um niðurskurð á þjónustu við bæjarbúa svo kannski náði bæjarstjórinn einfaldlega sínum markmiðum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingar á Seltjarnarnesi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×