Íslenski boltinn

Atli tók langflesta spretti: „Búinn að breyta sér úr lúxusleikmanni“

Sindri Sverrisson skrifar
Atli Sigurjónsson í leiknum gegn Val á laugardaginn.
Atli Sigurjónsson í leiknum gegn Val á laugardaginn. vísir/daníel

Atli Sigurjónsson hljóp 1,4 kílómetra á spretti, það er að segja á yfir 20 km/klst, þegar hann lék með KR gegn Val í 1. umferð Pepsi Max-deildinni í fótbolta.

„Hann [Atli] er búinn að breyta sér úr lúxusleikmanni í að vera leikmaður sem ég held að Rúnar Kristins eigi erfitt með að líta framhjá,“ sagði Gummi Ben í Pepsi Max stúkunni.

Sérfræðingarnir skoðuðu hlaupatölur leikmanna úr stórleik Vals og KR þar sem meðal annars kom fram að Atli hefði átt langflesta spretti í leiknum, eða 48 talsins. Næsti maður var Tobias Thomsen með 38 spretti á yfir 20 km/klst. Atli hljóp ekki bara hratt heldur alls 11,1 km í leiknum. Kaj Leo í Bartalsstovu hljóp lengst allra eða 11,92 km.

Þrír efstu í hvoru liði, þegar horft er til heildarvegalengdar sem hlaupin var á yfir 20 km/klst.MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Þessar tölur sanna það að Atli var úti um allt,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, annar sérfræðinga Gumma í þættinum. „Hann var óheppinn að skora ekki í byrjun leiks og það er þvílík vinnsla í honum. Hann er ekki bara með flesta sprettina og lengstu vegalengdina á spretti, heldur langflesta spretti og langmestu vegalengdina. Hann er orðinn ótrúlega dýrmætur þessu KR-liði,“ sagði Davíð en innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Hlaupatölur úr leik Vals og KR

Finnur Orri Margeirsson átti hraðasta sprettinn sem mældist í leiknum en hann hljóp þá á 33,3 km/klst. Atli var rétt á eftir honum í þeim efnum en hér að neðan má sjá þessar tölur og fleiri upplýsingar úr leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×