Erlent

Skilnaðar­pappírar undir­ritaðir af Anne-Elisa­beth fundust á heimili hjónanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Norska lögreglan fann skilnaðarpappíra við rannsókn á heimili Anne-Elisabeth Hagen og eiginmanns hennar, Tom Hagen, sem sú fyrrnefnda hafði ritað nafn sitt undir.

Þetta hefur norska dagblaðið VG eftir nokkrum heimildamönnum sínum og segir skjölin hafa fundist við húsleit lögreglu á heimili Hagen-hjónanna í Lorenskógi í Ósló skömmu eftir að Tom Hagen var handtekinn í lok apríl. Hann er grunaður um að hafa myrt Anne-Elisabeth eða átt aðild að dauða hennar.

Samkvæmt heimildum VG eru skjölin nokkurra ára gömul og voru gefin út talsvert áður en Anne-Elisabeth hvarf af heimilinu þann 31. október 2018. Skilnaðarpappírarnir eru á meðal sönnunargagna sem lögregla hefur aflað við húsleit á heimilinu. Aðeins Anne-Elisabeth hefur undirritað pappírana, ekki eiginmaðurinn.

Fram hefur komið að Anne-Elisabeth sagði nokkrum nákomnum sér að hjónaband þeirra Toms væri stormasamt. Í frétt VG segir að ýmislegt bendi til þess að hún hafi viljað skilja við mann sinn áður en hún hvarf. Tom Hagen er hins vegar sagður hafa haldið því fram í fyrstu að þau hjónin hafi aldrei rætt skilnað þá áratugi sem þau hafa verið saman.

Skömmu síðar breytti hann þó framburði sínum örlítið og sagði að möguleikinn á skilnaði hefði verið nefndur sem lausn við tiltekinni deilu þeirra á milli. Umræður þess efnis hefðu þó aldrei verið teknar af fullri alvöru.

Saksóknari segir í samtali við VG að lögregla geti ekki tjáð sig um skilnaðarpappírana. Þá segir Svein Holden verjandi Toms Hagen að hann hafi sjálfur ekki séð sjölin sem um ræðir og vill ekki tjá sig um það hvort Tom viti af þeim. Þau hjónin hafi vissulega gengið í gegnum erfiðleika í hjónabandinu fyrir um áratug en komist í gegnum þá, sterkari en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×