Baráttukonan og Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai lauk í dag síðustu lokaprófunum við Oxford háskóla í Bretlandi þar sem hún hefur stundað nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hún lýsti yfir ánægju sinni á Twitter í dag.
Hin 22 ára gamla baráttukona, sem lifði það af að hafa verið skotin í höfuðið af vígamönnum Talíbana, skrifaði á Twitter: „Ég veit ekki hvað tekur við. Núna verður það Netflix, lestur og svefn.“
Hard to express my joy and gratitude right now as I completed my Philosophy, Politics and Economics degree at Oxford. I don t know what s ahead. For now, it will be Netflix, reading and sleep. pic.twitter.com/AUxN55cUAf
— Malala (@Malala) June 19, 2020
Talíbanar beindu spjótum sínum að Malölu vegna þess að hún hafði talað opinberlega um það að stúlkur ættu rétt á því að hljóta menntun. Hún var skotin í höfuðið, hálsinn og öxlina þegar Talíbanar stöðvuðu skólarútu hennar þegar hún var á leiðinni heim.
Eftir að hún hafði náð sér flutti hún og fjölskylda hennar til Birmingham á Bretlandi og árið 2014 varð hún yngsti verðlaunahafi friðarverðlauna Nóbels en hún var aðeins 17 ára gömul þegar hún hlaut þann heiður. Þremur árum síðar var henni boðið pláss í Oxford háskóla.