Sverrir Ingi Ingason spilaði allan leikinn í vörninni hjá PAOK Thessaloniki í grísku úrvalsdeildinni í 3-1 sigri á OFI Crete.
Markalaust var í hálfleik en OFI komust yfir á 49. mínútu. PAOK voru fljótir að svara og jöfnuðu strax á 58. mínútu. Í uppbótartíma fengu þeir síðan víti sem fyrrum Arsenal maðurinn Chuba Akpom skoraði úr. Heimamenn létu það ekki duga því Omar El Kaddouri innsiglaði 3-1 sigur skömmu síðar.
PAOK eru eftir sigurinn í 2. sæti en eru þó heilum 16 stigum á eftir Olympiacos sem tróna á toppnum.
Arnór Sigurðsson byrjaði inn á fyrir CSKA Moskva í 0-4 tapi á heimavelli gegn Zenit. Arnóri var skipt út af á 64. mínútu en Hörður Björgvin Magnússon kom inn á í hálfleik og spilaði allan seinni hálfleikinn. Brasilíumaðurinn Malcolm sem kom til Zenit frá Barcelona fyrir ári skoraði tvö mörk í leiknum.
CSKA er í 5. sæti, fimm stigum á eftir Meistaradeildarsæti en Zenit eru langefstir á toppnum.