Skoðun

Hættið þessu rugli!

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

830 manns bíða eftir liðskiptaaðgerð á Landspítala. Höfum í huga að það er líka löng bið eftir því að komast á biðlistann! Liðskiptaaðgerðir eru heldur ekki neinar smá aðgerðir. Það leggur enginn slíkt á sig nema vera sárkvalinn og hafa verið lengi.

Það er pólitísk rörsýn ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem gerir að verkum að þau borga frekar fyrir fólk að fara í aðgerðir til Svíþjóðar en ganga til samninga við Klínikina þar sem starfa helstu sérfræðingar landsins á sviði liðskipta.

Talandi um að borga. Fyrir eina aðgerð á einkaspítölum í Svíþjóð fást þrjár aðgerðir á einkastofu á Íslandi. Það eru engar ýkjur þegar markviss sóun ríkisstjórnarinnar á almannafé er gagnrýnd. Það breytir engu þó í siðareglum ráðherra sé sérstaklega kveðið á um að þeir sýni ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera.

Covid-19 faraldurinn, með tilheyrandi ferðatakmörkunum, auknu álagi á Landspítala og vaxandi biðlistum, hefur ekki hnikað til þessari stefnu ríkisstjórnarinnar. Á meðal þjáist fullt af fólki sem er hreinlega slegið út.

Samstaða ríkisstjórnarflokkanna þriggja um þetta mál er næstum því aðdáunarverð. Það er verst hvað hún gengur gegn almannahagmunum og skaðar marga einstaklinga beint; bæði líkamlega og fjárhagslega.

Hættið þessu rugli!

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×