Enski boltinn

„Ótrúlegt afrek hjá leikmönnum mínum“

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool fagna um allan heim í kvöld en Klopp hvetur fólk til að halda sig í smáum hópum.
Stuðningsmenn Liverpool fagna um allan heim í kvöld en Klopp hvetur fólk til að halda sig í smáum hópum. VÍSIR/GETTY

„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri nýkrýndra Englandsmeistara Liverpool í fótbolta, eftir að titillinn var í höfn í kvöld.

Liverpool hefur haft algjöra yfirburði á leiktíðinni og eftir að Manchester City tapaði fyrir Chelsea í kvöld var titillinn í höfn, þó að enn væru sjö umferðir eftir.

„Þetta er meira en ég hefði nokkurn tímann talið mögulegt. Vitandi það hvernig Kenny [Dalglish] studdi okkur, þá er þetta fyrir hann. Hann beið í 30 ár, og þetta er fyrir Stevie [Gerrard]. Strákarnir dást að ykkur öllum og það er auðvelt að gíra upp liðið vegna þeirrar miklu sögu sem félagið á,“ sagði Klopp við Sky Sports.

Jürgen Klopp hefur gert Liverpool að besta liði Englands, því langbesta miðað við þessa leiktíð.VÍSIR/GETTY

„Þetta voru taugatrekkjandi 100 mínútur í leiknum hjá City. Ég vildi helst ekki spá í þessu en maður gerir það þegar maður horfir. Þetta er ótrúlegt afrek hjá leikmönnum mínum og gríðarlega ánægjulegt fyrir mig að þjálfa þá. Ég er ekki búinn að bíða í 30 ár. Ég er búinn að vera hérna í fjögur og hálft ár, en þetta er talsvert afrek, sérstaklega eftir þetta þriggja mánaða hlé því enginn vissi hvort við gætum haldið áfram,“ sagði Klopp.

„Leikurinn í gær [sigur á Crystal Palace] fullvissaði mig um að við værum í góðum málum og kvöldið í kvöld er fyrir stuðningsmennina. Ég vona að þið haldið ykkur heima og það er mjög gaman að geta fært ykkur þetta. Faraldurinn er ekki búinn og við horfðum á leikinn saman á hóteli og munum njóta augnabliksins,“ sagði Klopp.

„Ég veit að þetta er erfitt fyrir fólk á svona stundu en við gátum ekki haldið aftur af okkur. Við munum fagna þessu með stuðningsmönnum um leið og við getum,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×