Enski boltinn

Frumkvöðlarnir Salah og Mané

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah og Sadio Mané eru dýrkaðir heima í Egyptalandi og Senegal, sem og að sjálfsögðu af Liverpool-stuðningsmönnum.
Mohamed Salah og Sadio Mané eru dýrkaðir heima í Egyptalandi og Senegal, sem og að sjálfsögðu af Liverpool-stuðningsmönnum. VÍSIR/GETTY

Sadio Mané og Mohamed Salah, tveir af lykilmönnum Liverpool, hafa skráð sig rækilega í sögubækurnar með því að verða Englandsmeistarar.

Mané er fyrsti Senegalinn til þess að verða Englandsmeistari í fótbolta og Salah er fyrsti Egyptinn til þess að vinna titilinn.

Óhætt er að segja að tvíeykið hafi lagt afar mikið af mörkum á leiktíðinni en Salah hefur skorað 17 mörk og er næstmarkahæstur í deildinni, og Mané hefur skorað 15 mörk. Þeir hafa lagt upp sjö mörk hvor um sig.

Salah kom til Liverpool frá Roma sumarið 2017 og setti met strax á fyrsta tímabili þegar hann skoraði 32 mörk, fleiri en nokkur hefur gert á 38 leikja tímabili í úrvalsdeildinni. Hann fór með Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu en meiddist á 30. mínútu og varð að fara af velli, og munaði um minna fyrir liðið. Hann skoraði fyrra mark Liverpool úr víti þegar liðið varð Evrópumeistari með 2-0 sigri á Tottenham í fyrra.

Mané kom til Liverpool frá Southampton ári fyrr en Salah, eða sumarið 2016, og var valinn leikmaður ársins hjá liðinu á sínu fyrsta tímabili. Þeir Salah voru ásamt Pierre-Emerick Aubameyang markahæstir í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með 22 mörk hver. Mané var kjörinn knattspyrnumaður ársins í Afríku á síðasta ári, eftir að Salah hafði hlotið útnefninguna árin tvö þar á undan.


Tengdar fréttir

„Ótrúlegt afrek hjá leikmönnum mínum“

„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri nýkrýndra Englandsmeistara Liverpool í fótbolta, eftir að titillinn var í höfn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×