Innlent

Um þrjú hundruð manns í sóttkví vegna smitsins

Andri Eysteinsson skrifar
Þórólfur Guðnason á fundinum í dag
Þórólfur Guðnason á fundinum í dag Vísir/Einar

Um 300 manns eru nú í sóttkví eftir að að einn greindist smitaður af Kórónuveirunni í gær. Um er að ræða eitt stærsta smitrakningarmál sem rakningarteymi almannavarna hefur þurft að takast á við. Þegar hefur einn smitast innanlands.

Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir á blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum í dag. Hann sagði að síðustu daga hafi fimm greinst með virkt smit af rúmlega 12.000 einstaklingum sem komið hafa til landsins.

Sýni voru tekin úr 800 farþegum í dag og ekkert sýni hefur enn reynst smitandi.

Þórólfur sagði mesta smithættu vera frá Íslendingum sem koma erlendis frá þar sem tengslanetið er þétt hér á landi.

Hann hvatti Íslendinga sem koma hingað til lands að gæta vel að sóttvörnum þegar heim er komið þó að próf á landamærum hafi verið neikvætt. Sérstaklega með því að forðast mannmarga hópa.

Þetta eigi sérstaklega við þegar komið er frá löndum sem enn eru talin áhættusvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×