Innlent

Sól­veig Anna gagn­rýnir Liver­pool-mynd Katrínar

Sylvía Hall skrifar
Sólveig Anna segir það sjálfsagt að forsætisráðherra ræði áhugamál sín en í ljósi aðstæðna hafi það verið óviðeigandi.
Sólveig Anna segir það sjálfsagt að forsætisráðherra ræði áhugamál sín en í ljósi aðstæðna hafi það verið óviðeigandi. Vilhelm/Twitter

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það ekki við hæfi að forsætisráðherra hafi birt mynd af sér að fagna Englandsmeistaratitli Liverpool í gær þegar fólk var í lífshættu eftir eldsvoðann á Bræðraborgarstíg. Henni sé velkomið að skrifa færslur um áhugamál sín en í ljósi aðstæðna hafi hún frekar átt að beina athyglinni að þeim harmleik sem átti sér stað.

„Mér finnst ekki við hæfi að forsætisráðherra birti færslu um fótboltaleik þegar að fólk er slasað og í lífshættu eftir skelfilegan eldsvoða, en þannig var staðan í gærkvöld, og þegar slökkviliðsfólk hefur lagt sig í mikla hættu við að reyna að bjarga þeim sem föst voru inn í húsinu,“ skrifar Sólveig Anna á Facebook-síðu sína.

Hún segir valdafólk landsins hafa frekar átt að viðurkenna þau samfélagslegu vandamál sem hafa fengið að „grassera meira og minna óáreitt“ undir fallegu yfirborði landsins. Þrátt fyrir að Ísland sé norrænt velferðarsamfélag sé stór hópur fólks verulega jaðarsett.

„Þetta fólk á það líka skilið að ráðamanneskjur hér viðurkenni tilvist þeirra. Fólkið í óíbúðarhæfu húsunum og iðnaðarhúsunum þarf mest á því að halda af öllum að með þeim sé staðið af þeim sem geta sannarlega breytt samfélaginu, og tilvera þeirra gerð mannsæmandi og góð.“

Þá gagnrýnir Sólveig Anna aðbúnað verkafólks hér á landi og segir aðstæður þeirra vera til skammar. Hún tekur undir orð Drífu Snædal þar sem hún gagnrýndi að meira púður færi í að elta uppi verkafólk en að taka á glæpamönnum og óheiðarlegum atvinnurekendum. Sérstakur bíll hefði það hlutverk að leita fólk uppi á meðan „atvinnurekendur sem nýta sér bága stöðu þessa hóps fá bókstaflega frítt spil“.

Hún segist hafa nóg af yfirborðskenndri stemningu stjórnvalda og fullyrðingum að allir séu saman í liði. Þess vegna leyfi hún sér að gagnrýna myndbirtinguna.

„Ég vil að við fókuserum á og tölum um það sem máli skiptir. Það er löngu tímabært.“


Tengdar fréttir

Áhætta fylgdi ósamþykktum breytingum á húsinu

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna brunans á Bræðraborgarstíg. Eldurinn sem talinn er vera af mannavöldum kom upp í kringum vistarverur hans í húsinu. Þrír létust og fjórir slösuðust í brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×