Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Fjölnir 3-1 | Blikar áfram með fullt hús stiga Sindri Sverrisson skrifar 29. júní 2020 22:06 Breiðablik hóf að spila heimaleiki sína á nýjum gervigrasvelli í fyrrasumar. VÍSIR/DANÍEL Breiðablik hefur farið afar vel af stað í Pepsi Max-deildinni undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar og er með fullt hús stiga eftir sigur á Fjölni, 3-1, í þriðju umferð í kvöld. Fjölnismenn eru áfram með eitt stig. Fjölnismenn byrjuðu leikinn í kvöld betur – af miklum krafti – og Ingibergur Kort Sigurðsson komst í mjög gott færi auk þess sem Arnór Breki Ásþórsson átti bylmingsskot utan teigs í þverslána. Smellurinn sem heyrðist virtist vekja heimamenn og endurfæddur Kristinn Steindórsson var búinn að koma þeim yfir strax á 8. mínútu. Kristinn hélt sæti sínu í byrjunarliði Blika eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Keflavík í bikarnum í síðustu viku, og hélt áfram að byggja ofan á frábært sumar sitt til þessa með því að skalla boltann í markið eftir misskilning Atla Gunnars og Hans Viktors. Eftir þetta hafði Breiðablik algjöra stjórn á leiknum í fyrri hálfleik. Blikar spiluðu boltanum oft skemmtilega á milli sín og þeir sköpuðu sér fín færi – á meðan að hinar fáu sóknaraðgerðir Fjölnis byggðust flestar á því að Örvar Eggertsson elti boltann einn – en staðan var þó aðeins 1-0 í hálfleik. Fjölnir kom af sama krafti inn í seinni hálfleik eins og þann fyrri og var nálægt því að jafna metin þegar dæmd var vítaspyrna eftir að skot Ingibergs fór í hönd Damirs Muminovic. Antoni Ari Einarsson varði hins vegar af öryggi víti Jóhanns Árna Gunnarssonar. Í stað þess að Fjölnir jafnaði metin úr víti komust Blikar í 2-0 úr víti sem að varamaðurinn Brynjólfur Willumsson var fljótur að sækja, eftir að hafa komið inn á. Thomas Mikkelsen skoraði úr spyrnunni. Fjölnismenn börðust af krafti í leiknum og neituðu að játa sig sigraða, þrátt fyrir að getumunurinn á liðunum sæist stundum vel, og Jón Gísli Ström hleypti spennu í stöðuna þegar hann nældi í vítaspyrnu og skoraði úr henni. Góð innkoma hjá varamanninum. En Fjölnir gat ekki fylgt markinu eftir og að lokum innsiglaði Gísli Eyjólfsson sigur Blika með góðu skoti, og sínu fyrsta marki síðan árið 2018. Af hverju vann Breiðablik? Breiðablik er með mikið betri mannskap en Fjölnir og gestirnir hefðu þurft sinn skerf af heppni til að fá eitthvað út úr leiknum, jafnvel þó að Blikar leyfðu sér að hafa ekki fótinn á bensíngjöfinni allan tímann. Það hjálpaði Blikum mikið að fá fyrsta markið snemma leiks og þeir litu oft út fyrir að eiga afar auðvelt með að spila sig í gegnum Fjölnisliðið, þó að þeir hafi látið þrjú mörk nægja í kvöld. Hverjir stóðu upp úr? Gísli Eyjólfsson var sífellt í spilinu hjá Blikum og fann réttu sendingarnar, og kórónaði svo leik sinn með flottu marki í lokin. Viktor Karl Einarsson var mjög ógnandi á hægri kantinum og Höskuldur Gunnlaugsson var gestunum einnig erfiður. Brynjólfur Willumsson átti mjög frísklega innkomu af bekknum; fiskaði víti, lagði upp rangstöðumark og var afar nálægt því að skora. Hvað gekk illa? Fjölnismenn voru fullfljótir að verða pirraðir í fyrri hálfleik gegn erfiðum andstæðingum, enda þurftu þeir oft mikið að vera í að fylgjast með og gekk illa að sækja. Þeir sönkuðu að sér áminningum fyrir óþarfa brot og tuð. Blikar eiga hins vegar líka að geta gengið frá leikjum gegn lökustu liðum deildarinnar með meira sannfærandi hætti, í stað þess að gefa tvö víti og hleypa óþarfa spennu í leikinn. Hvað gerist næst? Ef ekkert kemur upp á ætti næsti leikur Fjölnis að vera á heimavelli gegn Fylki næstkomandi laugardag, kl. 14, en Blikar sækja KA-menn heim á Greifavöllinn á sunnudag, eftir N1-mótið vinsæla. Óskar: Ömurlegt fyrir Viktor að fara í sóttkví en þetta er veruleikinn í dag „Ég held að við höfum gert okkur erfitt fyrir. Ég hef lítinn smekk fyrir því hvernig við byrjuðum leikinn, og líka hvernig við byrjuðum seinni hálfleik, en heilt yfir held ég að þetta hafi verið sanngjarn sigur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. „Við virkuðum slappir í byrjun en svo náum við ágætis köflum. Ég hefði kannski viljað sjá okkur vera aðeins grimmari fyrir framan markið, nýta þær stöður sem við fengum, en þetta var fínn sigur og ekki yfir miklu að kvarta. Það er erfitt að vera eitthvað fúll yfir þessu, en hins vegar er alveg ljóst að Blikaliðið á mikið inni bæði varnarlega og sóknarlega. Þá er ég að tala um transition, pressu, hlaupum, ná stöðugleika í spil og stjórna leiknum. Við þurfum að leggja enn harðar að okkur við að ná stöðugleika og verða betri. Vonandi verður það þannig þegar líða tekur á,“ sagði Óskar. Breiðablik hefur nú mætt þremur liðanna sem spáð var hvað verstu gengi í sumar og unnið þau öll, og er það kannski þessi „þægilega“ byrjun á mótinu sem verður til þess að leikmenn slaka aðeins á eins og í upphafi fyrri og seinni hálfleiks í kvöld? „Ég held að byrjunin á mótinu hafi sýnt að það eru engir þægilegir leikir í þessu. Það eru andstæðingar sem eru fyrir fram taldir þægilegri en aðrir en svo kemur í ljós að ef það er ekki kveikt á þér í öllum leikjum, þú leggur þig ekki fram, þá skiptir engu hvað liðið heitir eða hvar því var spáð fyrir mót. Byrjunin á þessu móti hefur fært mönnum sanninn um það að það þarf að vera kveikt á þér, sama á móti hverjum það er.“ Kórónuveirusmit greindist hjá leikmanni kvennaliðs Breiðabliks í síðustu viku en það hefur lítil áhrif haft á karlaliðið segir Óskar, fyrir utan þá staðreynd að Viktor Örn Margeirsson þurfti að fara í sóttkví eftir að hafa verið nálægt leikmönnum kvennaliðsins í útskriftarveislu. „Nei, það gerði það ekki. Þetta er hlutur sem við höfum enga stjórn á og ýtum frá okkur. Við tökum þetta alvarlega, og brýndum okkur enn frekar í því hvernig við hegðum okkur til að passa upp á hreinlæti. En að öðru leyti þá undirbjuggum við okkur bara fyrir þennan leik eins og hvern annan. Það er ömurlegt fyrir Viktor Örn að þurfa að fara í sóttkví, ömurlegt fyrir Stjörnuna að vera með allt liðið í sóttkví og eins kvennaliðin, en þetta er bara veruleikinn sem við núna búum við. Við þurfum einhvern veginn að klóra okkur í gegnum þetta.“ Óskar lætur það ekki angra sig að kórónuveiran sé strax farin að hafa áhrif á Íslandsmótið. „Alls ekki. Þetta er hlutur sem við höfum enga stjórn á. Leiðinlegast er að mótið riðlast og það kemur skökk mynd á það. Einhverjir fá meiri hvíld á milli leikja núna en fá svo að finna fyrir því þegar þeir þurfa að leikja kannski á 2-3 daga fresti síðar á mótinu. Við getum ekki verið argir yfir þessu. Þetta er bara hluti af veruleikanum sem við búum við í dag.“ Gísli: Ekki sex ár síðan að ég skoraði „Þetta byrjar vel hjá okkur,“ sagði Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Breiðabliks, sem átti mjög góðan leik. „Við spiluðum heilt yfir ágætlega en misstum þetta niður á köflum. Við náðum samt að klára þetta í lokin,“ sagði Gísli og tók undir að Blikar hefðu fengið einhvers konar kinnhest í upphafi beggja hálfleika áður en þeir tóku við sér: „Öll liðin í þessari deild eru virkilega góð og ef að maður er ekki á tánum þá fær maður skellinn. Það gerðist líka á móti Keflavík. Það er svo sem fínt að fá þennan skell en við þurfum að fara að klára þessa leiki betur. Fá smá drápseðli í þetta.“ Kristinn Steindórsson hefur að mörgu leyti stolið senunni í Kópavoginum í upphafi tímabils. Hann kom Blikum yfir í kvöld, eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Keflavík í bikarnum sem og gegn Gróttu í fyrstu umferð. Hann hafði áður ekki skorað í deildarleik síðan árið 2014 en Gísli glotti bara aðspurður hvort að Kristinn væri ekki þegar búinn að gera meira en búast hefði mátt við: „Nei, nei. Ég býst bara við meiru af honum, miðað við það sem hann er búinn að vera að gera í vetur. Hann á fullt inni.“ Sjálfur skoraði Gísli ekki mark í tíu deildarleikjum síðasta sumar, eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku, en hann skoraði sjö mörk í 22 leikjum sumarið 2018 þegar hann fór á kostum. Hann skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni í kvöld, og kórónaði eins og fyrr segir með því mjög góðan leik: „Ég er virkilega sáttur. Ég er búinn að eiga góðan vetur og byrja vel. Það eru ekki sex ár síðan ég skoraði en það er slatti langt síðan að ég skoraði hérna þannig að þetta var kærkomið.“ Pirraðir yfir línunni hjá dómaranum „Ég er sár og svekktur,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis. „Við byrjuðum leikinn af miklum krafti, sköpuðum okkur góð færi og sýndum heilt yfir nokkuð góða frammistöðu. Við gáfum þeim hörkuleik og ég er hrikalega stoltur af strákunum af mörgu leyti, en við erum sárir og svekktir að nýta ekki færin okkar betur og að hafa gefið þeim frekar einföld mörk á móti,“ sagði Ásmundur, og taldi Fjölnisliðið hafa átt fínan leik úti á vellinum í kvöld. „Við eigum í byrjun sláarskot, komumst einir í gegn og fáum líka víti sem fer forgörðum, og það er allt dýrt í svona leik,“ sagði Ásmundur. Fjölnismenn fengu fimm áminningar í fyrri hálfleiknum og stundum fyrir brot sem virtust einkennast af agaleysi og pirringi. Ásmundur var ekki ánægður með störf Egils Arnars Sigurþórssonar dómara: „Ég held að menn hafi orðið svolítið pirraðir yfir línunni sem að við fengum á okkur. Okkur fannst halla svolítið á okkur og þá urðu menn pirraðir yfir því. Við reyndum að róa það niður og í seinni hálfleik var meiri agi, ef þú vilt kalla þetta agaleysi, en þegar menn eru ítrekað sparkaðir niður án þess að á því sé tekið þá verða þeir pirraðir. Það gerist bara. Þeir fengu of oft að fara aftan í okkur, sópa okkur niður, og þá svara menn með svona brotum og fá spjöld.“ Pepsi Max-deild karla Breiðablik Fjölnir
Breiðablik hefur farið afar vel af stað í Pepsi Max-deildinni undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar og er með fullt hús stiga eftir sigur á Fjölni, 3-1, í þriðju umferð í kvöld. Fjölnismenn eru áfram með eitt stig. Fjölnismenn byrjuðu leikinn í kvöld betur – af miklum krafti – og Ingibergur Kort Sigurðsson komst í mjög gott færi auk þess sem Arnór Breki Ásþórsson átti bylmingsskot utan teigs í þverslána. Smellurinn sem heyrðist virtist vekja heimamenn og endurfæddur Kristinn Steindórsson var búinn að koma þeim yfir strax á 8. mínútu. Kristinn hélt sæti sínu í byrjunarliði Blika eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Keflavík í bikarnum í síðustu viku, og hélt áfram að byggja ofan á frábært sumar sitt til þessa með því að skalla boltann í markið eftir misskilning Atla Gunnars og Hans Viktors. Eftir þetta hafði Breiðablik algjöra stjórn á leiknum í fyrri hálfleik. Blikar spiluðu boltanum oft skemmtilega á milli sín og þeir sköpuðu sér fín færi – á meðan að hinar fáu sóknaraðgerðir Fjölnis byggðust flestar á því að Örvar Eggertsson elti boltann einn – en staðan var þó aðeins 1-0 í hálfleik. Fjölnir kom af sama krafti inn í seinni hálfleik eins og þann fyrri og var nálægt því að jafna metin þegar dæmd var vítaspyrna eftir að skot Ingibergs fór í hönd Damirs Muminovic. Antoni Ari Einarsson varði hins vegar af öryggi víti Jóhanns Árna Gunnarssonar. Í stað þess að Fjölnir jafnaði metin úr víti komust Blikar í 2-0 úr víti sem að varamaðurinn Brynjólfur Willumsson var fljótur að sækja, eftir að hafa komið inn á. Thomas Mikkelsen skoraði úr spyrnunni. Fjölnismenn börðust af krafti í leiknum og neituðu að játa sig sigraða, þrátt fyrir að getumunurinn á liðunum sæist stundum vel, og Jón Gísli Ström hleypti spennu í stöðuna þegar hann nældi í vítaspyrnu og skoraði úr henni. Góð innkoma hjá varamanninum. En Fjölnir gat ekki fylgt markinu eftir og að lokum innsiglaði Gísli Eyjólfsson sigur Blika með góðu skoti, og sínu fyrsta marki síðan árið 2018. Af hverju vann Breiðablik? Breiðablik er með mikið betri mannskap en Fjölnir og gestirnir hefðu þurft sinn skerf af heppni til að fá eitthvað út úr leiknum, jafnvel þó að Blikar leyfðu sér að hafa ekki fótinn á bensíngjöfinni allan tímann. Það hjálpaði Blikum mikið að fá fyrsta markið snemma leiks og þeir litu oft út fyrir að eiga afar auðvelt með að spila sig í gegnum Fjölnisliðið, þó að þeir hafi látið þrjú mörk nægja í kvöld. Hverjir stóðu upp úr? Gísli Eyjólfsson var sífellt í spilinu hjá Blikum og fann réttu sendingarnar, og kórónaði svo leik sinn með flottu marki í lokin. Viktor Karl Einarsson var mjög ógnandi á hægri kantinum og Höskuldur Gunnlaugsson var gestunum einnig erfiður. Brynjólfur Willumsson átti mjög frísklega innkomu af bekknum; fiskaði víti, lagði upp rangstöðumark og var afar nálægt því að skora. Hvað gekk illa? Fjölnismenn voru fullfljótir að verða pirraðir í fyrri hálfleik gegn erfiðum andstæðingum, enda þurftu þeir oft mikið að vera í að fylgjast með og gekk illa að sækja. Þeir sönkuðu að sér áminningum fyrir óþarfa brot og tuð. Blikar eiga hins vegar líka að geta gengið frá leikjum gegn lökustu liðum deildarinnar með meira sannfærandi hætti, í stað þess að gefa tvö víti og hleypa óþarfa spennu í leikinn. Hvað gerist næst? Ef ekkert kemur upp á ætti næsti leikur Fjölnis að vera á heimavelli gegn Fylki næstkomandi laugardag, kl. 14, en Blikar sækja KA-menn heim á Greifavöllinn á sunnudag, eftir N1-mótið vinsæla. Óskar: Ömurlegt fyrir Viktor að fara í sóttkví en þetta er veruleikinn í dag „Ég held að við höfum gert okkur erfitt fyrir. Ég hef lítinn smekk fyrir því hvernig við byrjuðum leikinn, og líka hvernig við byrjuðum seinni hálfleik, en heilt yfir held ég að þetta hafi verið sanngjarn sigur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. „Við virkuðum slappir í byrjun en svo náum við ágætis köflum. Ég hefði kannski viljað sjá okkur vera aðeins grimmari fyrir framan markið, nýta þær stöður sem við fengum, en þetta var fínn sigur og ekki yfir miklu að kvarta. Það er erfitt að vera eitthvað fúll yfir þessu, en hins vegar er alveg ljóst að Blikaliðið á mikið inni bæði varnarlega og sóknarlega. Þá er ég að tala um transition, pressu, hlaupum, ná stöðugleika í spil og stjórna leiknum. Við þurfum að leggja enn harðar að okkur við að ná stöðugleika og verða betri. Vonandi verður það þannig þegar líða tekur á,“ sagði Óskar. Breiðablik hefur nú mætt þremur liðanna sem spáð var hvað verstu gengi í sumar og unnið þau öll, og er það kannski þessi „þægilega“ byrjun á mótinu sem verður til þess að leikmenn slaka aðeins á eins og í upphafi fyrri og seinni hálfleiks í kvöld? „Ég held að byrjunin á mótinu hafi sýnt að það eru engir þægilegir leikir í þessu. Það eru andstæðingar sem eru fyrir fram taldir þægilegri en aðrir en svo kemur í ljós að ef það er ekki kveikt á þér í öllum leikjum, þú leggur þig ekki fram, þá skiptir engu hvað liðið heitir eða hvar því var spáð fyrir mót. Byrjunin á þessu móti hefur fært mönnum sanninn um það að það þarf að vera kveikt á þér, sama á móti hverjum það er.“ Kórónuveirusmit greindist hjá leikmanni kvennaliðs Breiðabliks í síðustu viku en það hefur lítil áhrif haft á karlaliðið segir Óskar, fyrir utan þá staðreynd að Viktor Örn Margeirsson þurfti að fara í sóttkví eftir að hafa verið nálægt leikmönnum kvennaliðsins í útskriftarveislu. „Nei, það gerði það ekki. Þetta er hlutur sem við höfum enga stjórn á og ýtum frá okkur. Við tökum þetta alvarlega, og brýndum okkur enn frekar í því hvernig við hegðum okkur til að passa upp á hreinlæti. En að öðru leyti þá undirbjuggum við okkur bara fyrir þennan leik eins og hvern annan. Það er ömurlegt fyrir Viktor Örn að þurfa að fara í sóttkví, ömurlegt fyrir Stjörnuna að vera með allt liðið í sóttkví og eins kvennaliðin, en þetta er bara veruleikinn sem við núna búum við. Við þurfum einhvern veginn að klóra okkur í gegnum þetta.“ Óskar lætur það ekki angra sig að kórónuveiran sé strax farin að hafa áhrif á Íslandsmótið. „Alls ekki. Þetta er hlutur sem við höfum enga stjórn á. Leiðinlegast er að mótið riðlast og það kemur skökk mynd á það. Einhverjir fá meiri hvíld á milli leikja núna en fá svo að finna fyrir því þegar þeir þurfa að leikja kannski á 2-3 daga fresti síðar á mótinu. Við getum ekki verið argir yfir þessu. Þetta er bara hluti af veruleikanum sem við búum við í dag.“ Gísli: Ekki sex ár síðan að ég skoraði „Þetta byrjar vel hjá okkur,“ sagði Gísli Eyjólfsson, miðjumaður Breiðabliks, sem átti mjög góðan leik. „Við spiluðum heilt yfir ágætlega en misstum þetta niður á köflum. Við náðum samt að klára þetta í lokin,“ sagði Gísli og tók undir að Blikar hefðu fengið einhvers konar kinnhest í upphafi beggja hálfleika áður en þeir tóku við sér: „Öll liðin í þessari deild eru virkilega góð og ef að maður er ekki á tánum þá fær maður skellinn. Það gerðist líka á móti Keflavík. Það er svo sem fínt að fá þennan skell en við þurfum að fara að klára þessa leiki betur. Fá smá drápseðli í þetta.“ Kristinn Steindórsson hefur að mörgu leyti stolið senunni í Kópavoginum í upphafi tímabils. Hann kom Blikum yfir í kvöld, eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Keflavík í bikarnum sem og gegn Gróttu í fyrstu umferð. Hann hafði áður ekki skorað í deildarleik síðan árið 2014 en Gísli glotti bara aðspurður hvort að Kristinn væri ekki þegar búinn að gera meira en búast hefði mátt við: „Nei, nei. Ég býst bara við meiru af honum, miðað við það sem hann er búinn að vera að gera í vetur. Hann á fullt inni.“ Sjálfur skoraði Gísli ekki mark í tíu deildarleikjum síðasta sumar, eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku, en hann skoraði sjö mörk í 22 leikjum sumarið 2018 þegar hann fór á kostum. Hann skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni í kvöld, og kórónaði eins og fyrr segir með því mjög góðan leik: „Ég er virkilega sáttur. Ég er búinn að eiga góðan vetur og byrja vel. Það eru ekki sex ár síðan ég skoraði en það er slatti langt síðan að ég skoraði hérna þannig að þetta var kærkomið.“ Pirraðir yfir línunni hjá dómaranum „Ég er sár og svekktur,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis. „Við byrjuðum leikinn af miklum krafti, sköpuðum okkur góð færi og sýndum heilt yfir nokkuð góða frammistöðu. Við gáfum þeim hörkuleik og ég er hrikalega stoltur af strákunum af mörgu leyti, en við erum sárir og svekktir að nýta ekki færin okkar betur og að hafa gefið þeim frekar einföld mörk á móti,“ sagði Ásmundur, og taldi Fjölnisliðið hafa átt fínan leik úti á vellinum í kvöld. „Við eigum í byrjun sláarskot, komumst einir í gegn og fáum líka víti sem fer forgörðum, og það er allt dýrt í svona leik,“ sagði Ásmundur. Fjölnismenn fengu fimm áminningar í fyrri hálfleiknum og stundum fyrir brot sem virtust einkennast af agaleysi og pirringi. Ásmundur var ekki ánægður með störf Egils Arnars Sigurþórssonar dómara: „Ég held að menn hafi orðið svolítið pirraðir yfir línunni sem að við fengum á okkur. Okkur fannst halla svolítið á okkur og þá urðu menn pirraðir yfir því. Við reyndum að róa það niður og í seinni hálfleik var meiri agi, ef þú vilt kalla þetta agaleysi, en þegar menn eru ítrekað sparkaðir niður án þess að á því sé tekið þá verða þeir pirraðir. Það gerist bara. Þeir fengu of oft að fara aftan í okkur, sópa okkur niður, og þá svara menn með svona brotum og fá spjöld.“
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti