Erlent

Kæmi Fauci ekki á óvart ef tilfellin verði 100 þúsund á dag í Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dr. Anthony Fauci í dag, með grímu.
Dr. Anthony Fauci í dag, með grímu. AP/Al Drago

Dr. Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna segir að honum kæmi það ekki á óvart ef tilfelli kórónuveirusmita í Bandaríkjunum nái 100 þúsund á dag í náinni framtíð.

„Augljóslega erum við ekki með stjórn á hlutunum,“ sagði Fauci er hann kom fyrir þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag þar sem verið ver að ræða opnun skóla og verslana á nýjan leik í Bandaríkjunum.

Kórónuveirufaraldurinn er í vexti í suður- og vesturríkjum Bandaríkjanna og hafa minnst sextán ríki þurft að stöðva eða hægja á því að aflétta samfélagslegum takmörkunum sem settar voru á fyrr á árinu til þess að takmarka kórónuveirusmit.

Fauci gagnrýndi yfirvöld í sumum ríkjum fyrir að hafa sleppt því að fylgja sumum skrefum sem mikilvægt hafi verið að taka til þess að geta aflétt samfélagslegum takmörkunum. Sagði hann að það myndi leiða til þess að smitum myndi fjölga.

„Ég get ekki sett fram nákvæma spá en þetta mun verða slæmt, ég get lofað ykkur því,“ sagði Fauci. Útskýrði hann fyrir þingmönnum að þrátt fyrir að faraldurinn væri mögulega í rénun í sumum ríkjum væri það mjög slæmt ef hann væri á fullri ferð í öðrum ríkjum. Allt landið væri viðkvæmt fyrir smitum á meðan faraldurinn væri á fullu einhvers staðar í Bandaríkjunum.

Alls hafa yfir 2,5 milljón smit greinst í Bandaríkjunum og um 130 þúsund látist af völdum Covid-19




Fleiri fréttir

Sjá meira


×