Erlent

Metfjöldi nýsmita vestanhafs

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Viðskiptavinir verslunarmiðstöðvar í  Paramus í New Jersey með grímur fyrir andlitinu.
Viðskiptavinir verslunarmiðstöðvar í  Paramus í New Jersey með grímur fyrir andlitinu. ap/Seth Wenig

Nýsmitum í Bandaríkjunum fjölgaði um 47 þúsund frá mánudegi til þriðjudags, ef marka má talningu Reuters. Aldrei hafa jafn mörg kórónuveirusmit greinst vestanhafs á einum sólarhring, en það kæmi sóttvarnalækni Bandaríkjanna ekki á óvart þó ný tilfelli yrðu tvöfalt fleiri áður en langt um líður.

„Augljóslega höfum við ekki stjórn á hlutunum,“ sagði Dr. Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, fyrir þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag þar sem verið ver að ræða opnun skóla og verslana á nýjan leik í Bandaríkjunum.

Faraldurinn er í nú hvað hröðustum vexti í Kaliforníu, Texas, Arizona og öðrum ríkjum í suður- og vesturhluta landsins. Fjöldi kórónuveirutilfella tvöfaldaðist í tíu ríkjum Bandaríkjanna í nýliðnum júnímánuði, til að mynda í Flórída.

Sökum útbreiðslunnar hafa sextán ríki þurft að hægja á eða hætt við að aflétta samfélagslegum takmörkunum sem settar voru á fyrr á árinu til þess að takmarka kórónuveirusmit. Til að mynda hafa stjórnvöld í Kaliforníu, Texas og Flórída ákveðið að loka aftur nýopnuðum skemmtistöðum ríkjanna, en faraldsfræðingar telja að þangað megi rekja fjölda smita.

Stjórnvöld í New York-ríki, New Jersey og Connecticut tilkynntu í gær að íbúar átta ríkja, Kaliforníu þeirra á meðal, þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til ríkjanna þriggja. Áður höfðu þau þær kvaðir verið lagðar á íbúa Texas og Flórída.

Alls hafa yfir 2,5 milljón smit greinst í Bandaríkjunum og um 130 þúsund látist af völdum Covid-19




Fleiri fréttir

Sjá meira


×