Gunnleifur Gunnleifsson, varamarkvörður Blika og hluti af þjálfarateymi liðsins, reyndist gulls ígildi í leik Breiðabliks og Fjölnis á mánudagskvöldið.
Fjölnismenn fengu tvær vítaspyrnur í leiknum en í fyrri vítaspyrnunni hljóp Gunnleifur bakvið mark Blika og virtist koma skilaboðum áleiðis til Antons Ara Einarssonar, markvörðs Blika.
Anton Ari gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna en síðar í hálfleiknum fengu gestirnir aðra vítaspyrnu. Þá tók Gunnleifur aftur á rás bakvið markið en Einar Ingi Jóhannsson, dómari leiksins, vísaði Gunnleifi frá markinu.
„Það vita allir sem fylgjast með íslenskri knattspyrnu að Gunnleifur fer ekkert að hita upp,“ sagði Guðmundur Benediktsson, þáttarstjórnandi Pepsi Max-stúkunnar í gær.
„Egill dómari vissi það alveg að það væri eitthvað annað sem væri í gangi.“
Þetta skemmtilega atvik má sjá hér að neðan.