Innlent

Minnast Finns og Jóhönnu með hlýju

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Finns Einarssonar og Jóhönnu S. Sigurðardóttur er minnst með mikilli hlýju.
Finns Einarssonar og Jóhönnu S. Sigurðardóttur er minnst með mikilli hlýju. HOG Chapter Iceland

Finnur Einarsson og Jóhanna S. Sigurðardóttir, parið sem lést í umferðarslysi á Kjalarnesi á sunnudag, voru virkir félagar í HOG Chapter Iceland, samtökum eigenda Harley Davidson-mótorhjóla á Íslandi. Samtökin minnast parsins með mikilli hlýju á Facebook í gær. Stofnaður hefur verið styrktarreikningur fyrir börn þeirra Finns og Jóhönnu til að standa straum af kostnaði vegna fráfalls foreldra sinna og jarðarfarar þeirra.

Í færslu samtakanna sem birt var á Facebook í gær segir að Finnur og Jóhanna hafi lagt afar mikið af mörkum til starfsins. Finnur varð varaformaður samtakanna áramótin 2018-2019 og þá reyndist framlag parsins í formi húsnæðis ómetanlegt.

„Þegar Chapterinn missti síðasta athvarf sitt keyptu þau hjónin húsnæðið í Nethyl sem þau lögðu endurgjaldslaust undir Chapterinn og hefur það verið mikils metið,“ segir í færslu samtakanna.

Ökumaður mótorhjóls sem slasaðist í slysinu á sunnudag er einnig félagi í samtökunum. Hann er nú á batavegi, að því er segir í færslunni og eru honum þar sendar hinar bestu batakveðjur.

Finnur og Jóhanna láta eftir sig fjögur uppkomin börn. Líkt og áður segir hefur verið stofnaður styrktarreikningur fyrir þau til að standa straum af kostnaði vegna sviplegs fráfalls Finns og Jóhönnu og jarðarfarar þeirra.

Þeir sem vilja láta fé af hendi rakna geta lagt inn á reikning 0114-15-382407, kt. 020168-4209.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×