Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði Bandaríkjamenn við „öfgakenndun-vinstrifasisma“ í ávarpi í gær sem fjölmiðlar ytra hafa lýst sem myrku. Þá kvartaði hann undan útilokunarmenningu þeirra sem vilja rífa niður styttur og minnismerki.
Trump hélt ávarpið fyrir framan Mt. Rushmore, eitt þekktasta minnismerki Bandaríkjanna, en andlit fjögurra fyrirrennara Trump eru þar meitluð í fjallið. Bæði New York Times og Washington Post segja að skilaboð ávarpsins hafi verið myrk, þannig hafi Trump stillt upp þeim sem hafa rifið niður styttur og minnismerki í mótmælaskyni sem óvinunum sem vilji rífa niður Bandaríkin.
„Við erum að horfa upp á miskunnarlausa herferð sem er ætluð til þess að þurrka út söguna okkur, gera lítið úr hetjum okkar, eyða gildum okkar og innræta börnin okkar,“ sagði Trump. „Æstur múgurinn er að reyna að rífa niður styttur af forfeðrum okkar, vanhelga okkar helgustu minnismerki og leysa úr læðingi glæpaöldu í borgum okkar.“
Að því er fram kemur í New York Times fór mesta púðrið í ávarpi Trump að mæra sjálfan sig sem sterkan leiðtoga sem myndi verja réttindi Bandaríkjamanna, efla og styðja löggæslu og menningu landsins. Þá gagnrýndi Trump harðlega útilokunarmenninguna svokölluðu, cancel-culture, sem hann sagði mótmælendur óspart nýta sér til þess að ógna andstæðingum sínum
Fyrir framan útskornu höggmyndirnar af George Washington, Thomas Jefferson, Abraham Lincoln og Theodore Rooselvelt, sagði Trump að arfleið þessara fyrrverandi forseta væri í hættu vegna mótmælenda sem vilja rífa niður styttur og minnismerki. Í kjölfar mikilla mótmæla í Bandaríkjunum vegna kynþáttafordóma innan lögreglunnar eftir dauða George Floyd hafa mótmælendur víða rifið niður styttur af mönnum sem tengdir hafa verið þrælahaldi.
Þá segir í frétt Washington Post að Trump hafi í fordæmt hreyfinguna sem knúið hefur áfram mótmælin í Bandaríkjunum að undanförnu. Sagði Trump að um róttæka hugmyndafræði væri að ræða sem sigldi undir flaggi félagslegs réttlætis en myndi í raun „eyðileggja réttlæti og samfélagið“.