Erlent

Mótmælandi sem ekið var á í Seattle látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðbragðsaðilar huga að slösuðum mótmælenda eftir að ökumaður ók inn í hóp þeirra á hraðbraut við Seattle á aðfaranótt laugardags.
Viðbragðsaðilar huga að slösuðum mótmælenda eftir að ökumaður ók inn í hóp þeirra á hraðbraut við Seattle á aðfaranótt laugardags. AP/James Anderson

Kona á þrítugsaldri sem stóð í hópi mótmælenda þegar ökumaður ók bíl sínum á fólkið í Seattle í Bandaríkjunum er látin af sárum sínum. Annar mótmælandi liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild sjúkrahúss. Ökumaðurinn er í haldi lögreglunnar.

Atvikið átti sér stað á I-5 hraðbrautinni við Seattle á aðfaranótt laugardags. Þar hafði hópur safnast saman til þess að mótmæla lögregluofbeldi og var hluta hraðbrautarinnar lokað vegna þess. Ökumaður hvítrar Jagúarbifreiðar ók bíl sínum fram hjá bifreiðum ríkislögreglunnar sem lokuðu veginum og keyrði inn í hóp mótmælendanna.

Summer Taylor, 24 ára gömul, lést af sárum sem hún hlaut þegar bílnum var ekið á hana í gærkvöldi. Diaz Love, 32 ára, slasaðist einnig alvarlega og er í alvarlegu ástandi á sjúkrahúsi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Ökuamður bifreiðarinnar, Dawit Kelete, flúði vettvangi en einn mótmælendanna elti hann á bíl og náði að stöðva för hans áður en lögreglumenn bar að sem handtóku Kelete. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi sakaður um líkamsárás með ökutæki. Samkvæmt dómskjölum var þungt yfir honum þegar hann var handtekinn og er hann sagður hafa spurt um líðan mótmælendanna.

Hvorki liggur fyrir hvað Kelete gekk til né hvernig hann komst á hraðbrautina sem ríkislögreglan hafði lokað meira en klukkustund áður en hann ók inn í hópinn. Lögregluna grunar að Kelete hafi ekið gegn akstursstefnu upp frárein áður en hann ók fram hjá vegartálmum sem lokuðu hraðbrautinni.

Umfangsmikil mótmæli hafa geisað í Seattle eftir dráp lögreglumanna á George Floyd, óvopnuðum blökkumanni, í Minneapolis í maí. Mótmælendur hafa meðal annars lokað hraðbrautinni nítján daga í röð. Ríkislögreglan í Washington segir að mótmæli þar verði nú bönnuð og að mótmælendur sem safnast þar saman verði handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×