Erlent

Forseti Brasilíu með kórónuveiruna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jair Bolsonaro forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro forseti Brasilíu. Vísir/EPA

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur greinst með kórónuveiruna.

CNN í Brasilíu greinir frá og segir að forsetinn hafi ákvað að fara í skimun eftir að hafa sýnt einkenni Covid-19 sjúkdómsins undanfarna daga. Í frétt CNN segir að hann hafi fundið fyrir þreytu, hita og vöðvaverkjum á sunnudaginn og ákveðið í kjölfarið að fara í skimun.

Í frétt CNN segir að niðurstöðurnar hafi borist í morgun og að forsetinn telji líklegt að hann hafi smitast þar sem hann sé í stöðugum samskiptum við ríkisborgara Brasilíu, að eigin sögn.

„Sem forseti þá er ég í framlínunni,“ er haft eftir Bolsonaro. Hann fer nú í einangrun og mun sinna vinnu sinni í gegnum fjarfundarbúnað.

Bolsonaro, hefur hingað til gefið lítið fyrir sóttvarnir vegna kórónuveirufaraldursins samþykkti nýverið lög sem gera það að skyldu að klæðast andlitsgrímu. Brasilía hefur fengið að finna fyrir kórónuveirufaraldrinum en alls hafa yfir 1,6 milljónir íbúa Brasilíu greinst með kórónuveirusmit og þar af hafa um 65 þúsund látið lífið.

Ríkisstjórn Brasilíu hefur verið gagnrýnd fyrir viðbrögð sín við veirunni og hefur forsetinn ítrekað gert lítið úr faraldrinum og virt sóttvarnartilmæli að vettugi. Einungis í Bandaríkjunum  hafa fleiri látist og greinst með kórónuveirusmit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×